Milka gerði útslagið
Dominykas Milka fór fyrir Keflvíkingum í kvöld þegar liðið tók á móti Val í Subway-deild karla í körfuknattleik. Milka kom Keflavík á bragðið með tólf af nítján stigum heimaliðsins í fyrsta leikhluta.
Keflavík - Valur 79:78
(19:14, 18:21, 27:22, 15:21)
Keflvíkingar leiddu með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta en svo var eins og slokknaði á liðinu eftir það. Á fyrstu fimm og hálfri mínútu annars leikhluta skoraði Keflavík aðeins tvö stig á meðan Valur gerði sautján og komst í ágætis forystu (21:31). Ágætis kafli kom þá hjá Keflavík og þeir gerðu sextán stig gegn fjórum fram að hálfleik. Staðan í hálfleik 37:35 fyrir heimamenn.
Leikurinn náði aldrei neinum hæðum og bar meira á baráttu en gæðum. Keflvíkingar náðu að byggja upp sjö stiga forystu í þriðja leikhluta en Valsmenn voru ekki tilbúnir að gefast upp og í fjórða leikhluta mátti litlu muna að illa færi. Valur jafnaði í upphafi leikhlutans og var leikurinn í járnum fram á lokamínútu. Valur komst í tveggja stiga forystu þegar um 45 sekúndur voru eftir (76:78) en Domynikas Milka fékk tvö vítaköst, hann skoraði úr öðru þeirra og þá munaði einu stigi. Valur fór í sókn en Valur Orri Valsson stal boltanum af Völsurum, fór sjálfur í sóknina og tók skotið en það vildi ekki niður, Jaka Brodnik náði frákastinu en tókst ekki að setja sitt skot heldur niður, þá kom bjargvætturinn Milka og blakaði honum niður í sömu mund og flautan gall. Lokatölur 79:78 fyrir Keflavík sem er efst í deildinni ásamt Þór Þorlákshöfn en bæði lið hafa tólf stig, sex sigrar og eitt tap.
Frammistaða Keflvíkinga: Dominykas Milka 26/13 fráköst, Calvin Burks Jr. 14, David Okeke 9/11 fráköst, Valur Orri Valsson 9, Jaka Brodnik 8/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 6/10 stoðsendingar, Ágúst Orrason 3, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Halldór Garðar Hermannsson 2, Nikola Orelj 0, Magnús Pétursson 0, Frosti Sigurðsson 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og má sjá myndasafn neðst á síðunni.