Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Milan Stefán ráðinn þjálfari Grindvíkinga á ný
Pálmi Ingólfsson, Jónas Þórhallsson og Milan Stefán Jankovic. Mynd/umfg.is
Miðvikudagur 16. janúar 2013 kl. 13:17

Milan Stefán ráðinn þjálfari Grindvíkinga á ný

Milan Stefán Jankovic hefur formlega verið ráðinn sem þjálfari Grindavíkur í knattspyrnu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Grindvíkingum. Pálmi Ingólfsson mun verða honum til aðstoðar.

Grindvíkingar ákváðu að segja Guðjóni Þórðarsyni upp störfum eftir að liðið féll úr Pepsi-deild karla síðastliðið sumar og hefur Milan Stefán stjórnað æfingum liðsins frá því í haust. Grindvíkingar nýttu sér ákvæði í samningi sínum við Guðjón og sögðu upp launaliði frá og með áramótum og því var Milan Stefán formlega kynntur sem þjálfari nú.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Milan Stefán hefur búið í Grindavík um tveggja áratuga skeið og þekkir gríðarlega vel til hjá félaginu. Hann lék með liðinu í fjölda ára og tók fyrst við liði Grindavíkur sem þjálfari sumarið 1999. Þetta er í þriðja sinn sem Milan Stefán tekur formlega við Grindavíkurliðinu en hann hefur einnig nokkrum sinnum hlaupið inn í þjálfarastöðuna við brotthvarf þjálfara hjá liðinu.

Síðast var Milan Stefán aðalþjálfari Grindavíkurliðsins tímabilið 2009 en hætti þá stjórn liðsins af eigin frumkvæði eftir aðeins þrjá leiki. Tímabilið á undan hafði hann skilað liðinu í 7. sæti.

Besti árangur Grindavíkur í efstu deild er þriðja sætið árið 2000 en þá var Milan Stefán einmitt á sínu öðru ári sem þjálfari liðsins. Ári síðar varð liðið í fjórða sæti. Hann stýrði Keflvíkingum í tvö tímabil og gerði liðið að bikarmeisturum sumarið 2004. Hann vann einnig 1. deildina árið 2007 eftir að Grindavík féll úr efstu deild árið 2006. Grindvíkingar gæla vafalaust við að Milan Stefán stýri liðinu beint upp í deild þeirra bestu á ný.

Árangur Milan Stefán sem aðalþjálfari:
2008 - Grindavík - 7. sæti - Landsbankadeildin
2007 - Grindavík - 1. sæti - 1. deild
2005 - Grindavík - 7. sæti - Landsbankadeildin
2004 - Keflavík - Bikarmeistarar - VISA-bikarinn
2004 - Keflavík - 5. sæti - Landsbankadeildin
2003 - Keflavík - 1. sæti - 1. deild
2001 - Grindavík - 4. sæti - Símadeildin
2000 - Grindavík - 3. sæti - Landsímadeildin
1999 - Grindavík - 6. sæti - Landsímadeildin