Miklar tilfinningar í einvíginu
Úrslitakeppnin í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik hefst annað kvöld þegar KR tekur á móti Grindavík í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum. Leikurinn hefst kl. 19:15 í DHL-Höllinni í Vesturbænum en Keflavík og Haukar mætast í hinni undanúrslitaviðureigninni. Fyrsti leikur Keflavíkur og Hauka fer fram í Toyotahöllinni í Keflavík á laugardag kl. 17:00 en þjálfari Keflavíkurkvenna, Jón Halldór Eðvaldsson, segir einvígið vera tilfinningaþrungið. Jón var á mánudag útnefndur besti þjálfari deildarinnar fyrir umferðir 18-24 en það var í annað sinn í vetur sem hann var valinn besti þjálfari umferðanna þar sem hann varð einnig fyrir valinu í umferðum 1-9. Keflavík varð deildarmeistari á dögunum og þrátt fyrir að hvert áfallið á fætur öðru hafi dunið yfir Keflvíkinga í vetur hefur Jón haldið vel á spilunum með Keflavík og ætlar sér ekkert annað en Íslandsmeistaratitilinn.
,,Gengi okkar í lok deildarkeppninnar er klárlega gott veganesti inn í úrslitakeppnina og við höfum verið að spila vel upp á síðkastið og ég hef trú á því að það haldi áfram inn í úrslitakeppnina,” sagði Jón sem hefur látið Keflavík pressa mikið í vetur og leika svæðisvörn. Hefur liðið úthald til að leika áfram af sama krafti út alla úrslitakeppnina? ,,Það er spurning hvort við þurfum ekki að gera einhverjar breytingar á vörninni okkar gegn Haukum þar sem við lendum gegn leikmanni eins og Victoriu Crawford sem er góður skotmaður. Við höfum úthald til að pressa allan völl og við höfum mikla breidd sem skiptir rosalega miklu málu og ef við þurfum að hlaupa einhverja leikina í 40 mínútur þá gerum við það. Liðið er í það góðu formi að ef við hlaupum heilar 40 mínútur þá förum við ekki í oddaleiki,” sagði Jón Halldór sem í fyrra máti sætta sig við að láta ansi oft í minnipokann gegn Haukum.
,,Það eru miklar tilfinningar í þessu einvígi þar sem Haukar völtuðu yfir okkur í öllum keppnum í fyrra og ég sofna oft með þá staðreynd í hausnum. Ég ber samt virðingu fyrir Haukum og þegar maður ber virðingu fyrir andstæðingum sínum þá er hægt að spila mjög góðan körfubolta sem er einmitt það sem við ætlum okkur að gera. Við munum gera allt í okkar valdi til þess að hefna fyrir ófarirnar gegn Haukum í fyrra,” sagði Jón en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki í undanúrslitum kemst áfram í úrslitin.
Fjórir frá Suðurnesjum skipuðu svo úrvalsliðið í umferðum 18-24 í Iceland Express deild kvenna. Tiffany Roberson var valin besti leikmaðurinn og þá var Petrúnella Skúladóttir einnig í liðinu en báðar koma þær úr Grindavík. Jón Halldór var valinn besti þjálfarinn og bakvörðurinn Pálína Gunnlaugsdóttir var einnig í liðinu. Aðrir í liðinu voru Hildur Sigurðardóttir, KR, og LaKiste Barkus, Hamri.
VF-Mynd/ [email protected]– Jón Halldór ásamt Petrúnellu Skúladóttur og Pálínu Gunnlaugsdóttur er úrvalslið umferða 18-24 voru tilkynnt síðastliðinn mánudag.