Mikilvægur sigur Njarðvíkinga
Njarðvíkingar stigu stórt skref í átt að tryggja sig frá falli í gærkvöld þegar þeir lögðu ÍR-inga 99:106 í hörkuleik. Með sigrinum er hættan á að Njarðvík falli úr Domino's-deild karla í körfuknattleik nánast úr sögunni
Logi Gunnarsson átti frábæran leik fyrir Njarðvík og gerði tuttugu stig. Í viðtali við Karfan.is eftir leik sagði hann leikinn vera einn þann mikilvægasta í sögu félagsins, þrautsegjan og varnarvinnan hafi skilað liðinu sigurinn. „Þrautsegjan og varnarlega séð, í seinni hálfleik þegar þeir komust yfir, við náðum góðum stoppum og gáfumst ekki upp. Þrautsegjan hefur skilað okkur sigrum í síðustu leikjum eftir að hafa lent undir, eins og á móti Þór og Grindavík. Við höfum ekki gefist upp og það held ég að hafa skapað sigurinn.“ Viðtalið má sjá í spilaranum neðst í fréttinni.
Njarðvíkingar vissu mætavel hvað var í húfi þegar þeir stigu á fjalirnar í Breiðholtinu í gær og það var hart barist. Fyrsti leikhluti var allur í járnum og hvorugu liði tókst að ná almennilegri forystu. Heimamenn voru tveim stigum yfir eftir leikhlutann, 24:22.
Í öðrum leikhluta voru Njarðvíkingar mjög ákveðnir og tóku strax forystu sem fór mest í fjórtán stig um miðjan leikhlutann (32:46). ÍR-ingar náðu þó að minnka muninn í þrjú stig (48:51) en Njarðvíkingar juku hana aftur og höfðu níu stiga forskot í hálfleik (48:57).
Þeir héldu forystunni megnið af þriðja leikhluta en Breiðhyltingar gáfust ekki upp, jöfnuðu leikinn og komust yfir. Fyrir síðasta leikhluta átti ÍR tvö stig á Njarðvík, 80:78, og spennandi fjórði leikhluti framundan.
Það var sannkölluð háspenna/lífshætta í síðasta leikhluta. Liðin skiptust á að ná eins til tveggja stiga forskoti en það voru Njarðvíkingar sem héldu það út og gerðu út um leikinn á lokamínútunum. Lokatölur 99:106 og með sigrinum jafnaði Njarðvík ÍR að stigum en fór upp fyrir ÍR-inga á stigatöflunni á innbyrðis viðureignum.
Fyrir lokaumferð Domino's-deildar karla er Njarðvík með sextán stig og fyrir neðan Njarðvík sitja; Þór Akureyri (sextán stig en eiga leik gegn Þór Þorlákshöfn í kvöld til góða), ÍR er með sextán stig, Höttur fjórtán og Haukar í neðsta sæti með tólf stig.
Framlag Njarðvíkinga í leiknum: Antonio Hester 27/8 fráköst, Mario Matasovic 22/8 fráköst, Logi Gunnarsson 20, Rodney Glasgow Jr. 18/6 fráköst/7 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 14, Kyle Johnson 5, Ólafur Helgi Jónsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Baldur Örn Jóhannesson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Gunnar Már Sigmundsson 0, Veigar Páll Alexandersson 0.