Mikilvægur sigur hjá Sandgerðingum
Reynir Sandgerði landaði í kvöld þremur afar dýrmætum stigum í botnbaráttunni í 1. deild karla í knattspyrnu með 2-1 sigri á KA. Jóhann Magni Jóhannsson reyndist hetja Reynis er hann skoraði sigurmarkið á 94. mínútu leiksins í viðbótartíma. Jóhann kom inn á sem varamaður á 88. mínútu og var því ekki búinn að vera lengi innanvallar þegar hann gerði markið.
Með sigrinum lyftu Sandgerðingar sér af botni deildarinnar og hafa nú jafn mörg stig og KA eða 15 talsins en Reynir hefur betra markahlutfall. Við þennan sigur Reynismanna hefur botnbaráttan galopnast þar sem Njarðvík, Víkingur Ólafsvík og Stjarnan hafa öll 16 stig, Leiknir 18 og Þór Akureyri 19. Ekkert þessara liða er öruggt um sæti sitt og því má gera ráð fyrir miklum barningi í næstu umferðum.
Gestirnir frá Akureyri komust í 0-1 í kvöld með marki frá Janes Vrenko en Árni Freyr Guðnason jafnaði metin fyrir Reyni og það var svo Jóhann Magni sem tryggði Sandgerðingum sætan og þýðingarmikinn sigur.
18. umferð 1. deildar lýkur á morgun þegar Grindvíkingar mæta Þrótti Reykjavík í sannkölluðum toppslag deildarinnar en aðeins eitt stig skilur liðin að á toppi deildarinnar. Með sigri á morgun er óhætt að segja að Grindvíkingar hafi gulltryggt sæti sitt í Landsbankadeild að ári. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Valbjarnarvelli.
Staðan í deildinni
VF-mynd/Þorgils - Reynismenn fagna jöfnunarmarki Árna Freys Gunnarssonar