Mikilvægur sigur hjá Reyni á heimavelli
Reynir Sandgerði vann mikilvægan sigur gegn ÍR á heimavelli í gærkvöld í 2. deild karla í knattspyrnu. Lokatölur leiksins urðu 1-0 fyrir heimamenn. Það var Jóhann Magni Jóhannsson sem skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu leiksins.
Eftir sigurinn er Reynir með sjö stig í 11. sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið tvo leiki í sumar og gert eitt jafntefli í níu leikjum. Sigurinn í gær var sérlega góður fyrir Sandgerðinga enda ÍR í toppbaráttunni í deildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Hamar á Grýluvelli á föstudag.
Víðir úr Garði tapaði á heimavelli fyrir Huginn í 3. deild karla á Garðsvelli. Lokatölur urðu 1-3 fyrir gestina sem komust í 0-3 í leiknum. Ólafur ívar Jónsson skoraði mark Víðis undir lok leiksins. Víðir er með 12 stig að loknum sjö umferðum og er í 5. sæti deildarinnar.
Reynir S. 1-0 ÍR
1-0 Jóhann Magni Jóhannsson (21’)
Víðir 1-3 Huginn
0-1 Marko Nikolic (29’)
0-2 Marko Nikolic (45’)
0-3 Vladan Vidanovic (50’ sjálfsmark)
1-3 Ólafur Ívar Jónsson (87’)