Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikilvægur sigur hjá Keflavík
Paula Watnick átti góða spretti í leiknum og skoraði markið mikilvæga sem skildi liðin að. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 24. september 2020 kl. 23:07

Mikilvægur sigur hjá Keflavík

Það var mikið í húfi þegar Keflavík og Haukar mættust á Nettóvellinum í Lengjudeild kvenna í dag, fyrir leikinn munaði sjö stigum á liðunum sem eru í öðru og þriðja sæti deildarinnar. Keflavík sigraði með einu marki gegn engu og hefur því aukið forskot sitt í tíu stig, Keflavíkurstelpur eru því skrefi nær sæti í efstu deild.

Það blés napurlega á Nettóvellinum í dag og Haukar byrjuðu leikinn af krafti með vindinn í bakið, það tók Keflavíkurstelpurnar tíma að vinna sig inn í leikinn og ljóst að Haukastelpur ætluðu að selja sig dýrt í þessum mikilvæga leik. Þær fóru ákveðnar í öll návígi og stjórnuðu leiknum lengst af í fyrri hálfleik.

Keflavík varðist vel og engin alvarleg hætta skapaðist upp við mark þeirra. Rétt fyrir leikhlé vann Natasha Anasi boltann á vallarhelmingi Hauka, lék upp kantinn og gaf fyrir þar sem Paula Isabella Germino Watnick var ein á auðum sjó og þurfti aðeins að stýra boltanum í autt markið, 1:0 í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Seinni hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri en Keflvíkingar voru fljótari að vinna sig inn í hann og meira jafnræði var með liðunum en í þeim fyrri. Bæði lið fengu sín færi en Keflvíkingar áttu nokkrar hraðar og hættulegar sóknir sem voru hársbreidd frá því að gefa mark, m.a. átti Claudia Nicole Cagnina skot í samskeytin og svo er spurning hvort Keflavík hefði ekki átt að fá dæmda vítaspyrnu þegar Anasi var brugðið í teignum.

Undir lokin bökkuðu Keflvíkingar og héldu fengnum hlut þótt Haukar hafi pressað stíft síðustu mínúturnar. Skynsamlega spilað og mikilvæg stig í höfn sem gætu haft úrslitaáhrif á hvort liðið vinni sig upp um deild þegar síðasta umferð hefur verið leikin.

Keflavík er nú með 36 stig í öðru sæti á meðan Tindastóll situr á toppnum með 40 stig, Haukar eru í þriðja sæti með 26 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Jóhann Páll Kristbjörnsson tók meðfylgjandi myndir á Nettóvellinum í dag.

Keflavík - Haukar | Lengjudeild kvenna 24. september 2020