Mikilvægur sigur fyrir sálartetrið
-Segir Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Pepsi-deildarliðs Grindavíkur. Ánægður með stöðugleikann hjá liðinu.
„Auðvitað var sigurinn mikilvægur fyrir sálartetrið en hann var aðallega mikilvægur upp á framhaldið,“ segir Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Pepsi-deildarliðs Grindavíkur í knattspyrnu eftir sigur á ÍA í Grindavík síðastliðinn mánudag.
Grindvíkingar hafa svo sannarlega komið á óvart í sumar en fyrir mótið voru spámenn ekki bjartsýnir og einhverjir gengu svo langt að spá þeim falli. Þeir sýndu það og sönnuðu að sú varð og verður ekki raunin en eftir frábært gengi á fyrri hluta mótsins var Grindavík meðal annars kallað „heitasta liðið“ og virtist það ósigrandi. Leikgleðin hefur verið allsráðandi hjá liðinu í sumar og eftir fjóra tapleiki í röð var kominn tími á sigur sem kom á heimavelli gegn ÍA eftir æsispennandi leik. Við ræddum við Gunnar Þorsteinsson fyrirliða Grindavíkur um sumarið, markmið og framhaldið í deildinni.
Hvað hefur komið mest á óvart í sumar fyrir utan frábært gengi fyrri hluta Íslandsmótsins?
Það sem komið hefur mér hvað mest á óvart í sumar er hversu mikinn stöðugleika við höfum sýnt miðað við að vera reynslulitlir nýliðar. Við höfum vissulega átt tvo afspyrnuslaka leiki en oft á tíðum hefur okkur tekist að knýja fram úrslit í erfiðum og jöfnum leikjum. Tveir ungir leikmenn hafa sprungið út sem vekur ávallt kátínu hjá stuðningsmönnum. Marínó Axel og Aroni Róbertssyni var fleygt út í djúpu laugina og þeir hafa báðir leikið líkt og sá sem valdið hefur. Ég er sérstaklega ánægður fyrir hönd Marínós sem hefur verið sérlega óheppinn með meiðsli í gegnum tíðina. Það hefur alls ekki komið mér á óvart að þeir hafi verið góðir, finnst bara gott að nefna það.
Nú unnuð þið ÍA á heimavelli eftir fjögur töp í röð, eruð komnir með 24 stig í deildinni eftir að hafa sett það markmið að vera með 22 stig fyrir tímabilið, hvert er svo markmiðið fyrir næstu leiki?
Við náðum fyrsta markmiði tímabilsins sem var 22 stig og kvöddum þar með endanlega allar vangaveltur um fallbaráttu (það hefur aldrei gerst að lið með 24 stig falli). Nú getum við horft fram á veginn og einbeitt okkur að næsta markmiði, að bæta stigamet Grindavíkur í efstu deild sem er 31 stig.
Hversu miklu máli skiptir stuðningur á leikjum fyrir ykkur?
Mér finnst ágætt að líkja góðum stuðningsmönnum við foreldra. Þó að allt gangi á afturfótum er ómetanlegt að vita af einhverjum sem stendur þétt við bakið á manni í blíðu og stríðu, svo lengi sem maður leggur sig allan í verkefnið. Í gegnum tíðina hefur þetta samband milli liðsins og stuðningsmanna stundum verið ábótavant en undir stjórn Óla Stefáns hefur mér þótt tengslin styrkjast. Hann er alþýðulegur, duglegur að funda með stuðningsmönnum og lætur svo auðvitað verkin tala inni á vellinum. Stuðningsmenn kunna að meta þetta. Ég hef aldrei upplifað jafn góðan stuðning og núna gegn ÍA þegar Sibbi Dagbjarts mætti með gítar á leikinn. Svona fólk er ómetanlegt.
Er eitthvað eitt frekar en annað sem hefur skapað þetta góða gengi hjá ykkur í sumar?
Auðvitað verður að hampa Bolvíkingnum Andra Rúnari. Hann hefur dregið vagninn fram á við og ef fram fer sem horfir mun hann skrá sig á spjöld íslenskrar knattspyrnusögu en það er alltaf sama gamla tuggan að þetta er liðsíþrótt. Þjálfarateymið sem samanstendur af Óla Stefáni, Jankó og Þorsteini Magnússyni og bestu liðsstjórum landsins þeim Arnari og Gumma á hvað stærstan þátt í okkar ágæta gengi. Þeir hafa á undraskömmum tíma híft liðinu frá miðjumoði í 1. deild í efri hluta úrvalsdeildarinnar og hafa hvað eftir annað sýnt að árangurinn er engin tilviljun. Öll þeirra vinnubrögð eru ákaflega fagleg sem smitar út til liðsins.