Mikilvægur sigur á heimavelli
Keflvíkingar unnu sigur á Fram á heimavelli sínum, 2-1, í kvöld og halda því enn í við toppliðin tvö, Val og FH.
Lengst af var leikurinn lítið fyrir augað og var ekki mikið um góð færi. Ívar Björnsson komst nærri því að skjóta gestunum yfir á 9. mínútu þegar hann var kominn inn fyrir vörnina, en skaut framhjá.
Fimm mínútum síðar leit fyrsta markið dagsins ljós þegar Þórarinn Kristjánsson, sem hefur verið á skotskónum undanfarið, skallaði framhjá Hannesi Halldórssyni í marki Framara. Kæruleysi gestanna skóp það færi því Guðjón Árni Antoníusson fékk lausan bolta aftarlega á kantinum. Hann gaf á Guðmund Steinarsson, sem fékk nógan tíma til að athafna sig fyrir utan teig og sendi góðan bolta inn á markteig þar sem Þórarinn átti ekki í erfiðleikum með að klára dæmið.
Eftir um hálftíma leik var Baldur Sigurðsson nærri því að auka forskotið en hann skallaði rétt framhjá.
Á 33. mínútu jöfnuðu Framarar þegar Hjálmar Þórarinsson slapp einn innfyrir eftir góðan undirbúning og taldist það sanngjarnt því gestirnir höfðu átt jafn mikið í leiknum.
Undir lok fyrri hálfleiks skall hurð nærri hælum þegar Marko Kotilainen átti skot af löngu færi í stöng Framara.
Keflvíkingar voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik, en samt voru þeir ekki að spila eins góðan bolta og þeir eru jafnan þekktir fyrir.
Á 55. mínútu gerðu varnarmenn Fram sig enn seka um værukærð þegar Guðmundur Steinarsson var enn á ferð á kantinum, sendi stutta fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Baldur Sigurðsson kom skeiðandi að gömlum sið, stakk boltanum fram hjá Hannesi og þrumaði boltanum upp í þaknetið.
Eftir það datt leikurinn niður að mestu, en þau fáu færi sem litu dagsins ljós það sem eftir lifðu leiks voru heimamanna. Það besta fékk Hallgrímur Jónasson á 78. mínútu þegar hann vippaði yfir Hannes og markið í upplögðu færi.
Eftir sigurinn er Keflavík, sem fyrr, í 3. sæti. Þeir eru einu stigi á eftir Val og fimm stigum á eftir meisturum FH.
VF-mynd/Hilmar Bragi - Baldur skorar sigurmarkið.