Mikilvægur sigur á heimavelli
Grindvíkingar löguðu stöðu sína í Landsbankadeild karla þegar þeir báru sigurorð af Fram, 3-1 á heimavelli sínum fyrr í dag. Mikilvægi þessa sigurs er óhemju mikið þegar litið er til stöðu liðanna. Bæði eru í hörðum fallslag og hefðu Grindvíkingar tapað væri næsta víst að þeir hefðu misst af lestinni.
Skammt var liðið á leikinn þegar Grindvíkingar komust yfir, en þar var að verki Óli Stefán Flóventsson á 13. mínútu. Grindvíkingar fengu hornspyrnu frá vinstri kanti sem Robert Nistroj tók og fékk Óli Stefán boltann, gjörsamlega óvaldaður á fjærstöng og smellti honum inn án vandræða.
Eftir þetta þýðingarmikla mark sóttu Framarar mun meira og stýrðu leiknum alfarið á kafla. Þeir voru hins vegar heppnir að lenda ekki tveimur mörkum undir þegar Grindvíkingar fengu vítaspyrnu á 27. mínútu.
Guðmundur Andri Bjarnason féll í teignum eftir aukaspyrnu Nistrojs og benti Kristinn Jakobsson, dómari á punktinn án þess að hika.
Spyrna Eyþórs Atla Einarssonar var hins vegar afleit og átti vítabaninn Gunnar Sigurðsson ekki í vandræðum með að sjá við honum.
Fram að hálfleik sóttu Framarar án afláts án þess þó að koma sér í ákjósanleg færi. Þrátt fyrir að spilið gengi ágætlega voru varnarmenn Grindvíkur, með Sinisa Kekic í broddi fylkingar, vel á verðinum. Kekic átti sérlega góðan leik, en hann var meiddur fyrir leikinn og þurfti að fara af velli seinna í leiknum.
Grindvíkingar léku skynsamlegan varnarbolta og beittu skyndisóknum og upp úr einni slíkri fengu þeir aukaspyrnu á stórhættulegum stað, rétt utan við vítateig.
Sóknarmenn stilltu sér upp við boltann og var nokkuð ljóst í hvað stefndi, en enginn úr varnarveggnum hljóp á móti þegar Óskar Hauksson lét vaða þrumuskot eftir að Kekic hafði hnikað við honum.
Skot Óskars sveif utan við vegginn og í netið, óverjandi fyrir Gunnar í markinu, staðan 2-0 og venjulegur leiktími í seinni hálfleik var liðinn.
Framarar tóku sig saman í andlitinu og fengu vítaspyrnu á 52. mínútu þegar Kekic felldi sóknarmann gestanna. Hans Mathiesen skoraði úr vítinu með góðu skoti sem Boban Savic náði ekki til og opnaði leikinn upp á gátt.
Eftir markið jókst pressan hjá Fram og Grindvíkingar drógu sig allt of langt aftur á völlinn. Gestirnir gegnu á lagið og lögðust þungt á vörnina, en eins og áður vantaði bit í sóknina hjá þeim þegar komið var nálægt teig heimamanna.
Þó virtist sem ætlaði að rofa til í sóknarleik Fram á 78. mínútu þegar mikið gekk á í teig Grindavíkur og þeim gekk erfiðlega að koma boltanum af hættusvæðinu.
Sú glæta hvarf þó fljótt tveimur mínútum síðar þegar Paul McShane fékk sendingu frá Nistroj inn á teig Fram og skallaði óvaldaður inn í mark. Með því var öll nótt úti fyrir Fram og, þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir hjá Fram og að 6 mínútum var bætt við leikinn, var sigurinn aldrei í hættu.
Hægt væri að halda því fram að sigurinn væri ósanngjarn vegna yfirburða Fram í spilamennskunni, en ekki er spurt að því í leikslok. Grindvíkingar léku góða vörn og nýttu sín færi á meðan Safamýrardrengir héngu á boltanum án þess að nýta sér það á nokkurn hátt.
Í kvöld leika Þróttur og KR og á morgun mætast Valur og ÍBV og ættu línur að fara að skýrast í fallbaráttunni eftir þá leiki.
VF-myndir/Þorgils