Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikilvægur fyrir stoltið og montréttinn í Sandgerði
Sunnudagur 6. júní 2010 kl. 10:27

Mikilvægur fyrir stoltið og montréttinn í Sandgerði

Í dag mætast erkifjendurnir Reynir og Víðir í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði. Tveir fyrrverandi Sandgerðingar mæta með Víðismönnum í leikinn í dag. Rimmur þessara liða hafa oftar en ekki verið bráðskemmtilegar á að horfa og ekki gefin tomma eftir. Það verður án nokkurs vafa barist til síðasta blóðdropa á sjálfan sjómanna sunnudaginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæði lið hafa farið illa af stað í deildinni þetta árið, eða bæði með 3 stig eftir einn sigur og tvö töp. Víðismenn hafa komið tuðrunni 5 sinnum í netmöskva andstæðinganna og fengið hana 7 sinnum í sitt eigið net. Reynismenn eru með aðeins betra markahutfall, eða skorað 8 mörk og fengið 7 á sig.

Víðismönnum var ekki spáð góðu gengi í sumar af þjálfurum og fyrirliðum í deildinni á meðan Sandgerðingum var spáð 2. sætinu og farseðli upp um deild. Þjálfari Víðismanna er enginn annar en Sandgerðingurinn Jakob Már Jónharðsson sem einmitt þjálfaði Reynisliðið þegar það var í 1. deildinni árið 2007.

Reynismenn ætla að fjölmenna á leikinn og segja þetta m.a. á heimasíðu Reynis:

Einnig hefur einn ástsælasti útlendingur sem hefur klæðst okkar íðifögru Reynistreyju í seinni tíð, Darko Milojkovic, gengið í raðir Víðismanna og verður forvitnilegt að sjá hvernig honum reiðir af á gömlum heimaslóðum og vonandi fær hann góðar móttökur frá Hvíta Hernum.

Á pappírunum frægu á þessi leikur að vera bókuð 3 stig í sampinn hjá okkar mönnum en það vita allir að þegar í svona derby leiki er komið skipta þessir pappírar akkúrat engu máli. Þess vegna ríður á að fólk fjölmenni á völlinn og styðji Reynismenn til sigurs í þessum mikilvæga leik. Leikurinn er ekki aðeins mikilvægur fyrir stoltið og montréttinn, heldur er þetta „must win“ leikur uppá framhaldið í deildinni þar sem okkar menn ætla sér klárlega að vera í toppbaráttunni í sumar.

Hvíti Herinn hefur farið mikinn í undanförnum leikjum þessara liða og náð upp magnaðri stemmningu og verður engin undantekning á því á sunnudaginn. Hvíti Herinn ætlar að hittast kl 12:00 á hádegi á sunnudaginn að Hlíðargötu 22 í Sandgerði (heima hjá Fannari) og grilla pylsur og gíra sig upp fyrir átökin. Þangað er allt Reynisfólk, bæði nær og fjær velkomið og eina skilyrðið er að mæta hvítklædd og með góða skapið í farteskinu ;)