Mikilvægt að leikmenn átti sig á fyrir hvað klúbburinn stendur
Víðismenn hafa farið vel af stað í 3. deild karla í knattspyrnu og að loknum fjórum umferðum eru þeir í öðru sæti deildarinnar með þrjá sigra og eitt tap. Víðir tók á móti KFS úr Vestmannaeyjum á laugardaginn og unnu glæsilegan 6:2 sigur. Dalvík/Reynir er efst í 3. deild með fullt hús stiga, tólf stig, en Víðir er með níu stig eins og KFC. Sigurður Elíasson og Arnar Freyr Smárason, þjálfarar Víðis, voru eðlilega í skýjunum þegar Víkurfréttir settust niður með þeim eftir leikinn og tóku létt spjall um tímabilið í ár og þeirra væntingar um árangur.
„Þetta var flottur sigur í dag,“ segir Arnar og bætir við: „Óþarfi samt að fá þessi tvö mörk á sig.“ Þetta lýsir kannski best metnaðinum sem þeir hafa fyrir Víðisliðinu en þeir eru nú á sínu öðru ári með liðið.
Þið byrjið nú tímabilið ágætlega, hver er stefnan?
„Við erum nú bara með þannig hóp að við getum alveg stefnt upp – og við viljum það. Við höfum talað um það í hópnum að okkur finnst að við eigum að vera ofar í deild.“
Sigurður segir að klúbburinn sé ekki í þriðju deildarklassa. „Umgjörðin utan um klúbbinn er svo góð og metnaður fyrir félaginu mikill. Við eigum að vera miklu ofar og það er það sem við erum að reyna.“
„Já, heldur betur,“ samsinnir Arnar Freyr.
Þetta er annað tímabilið sem þeir félagar eru með Víðisliðið og þeir því farnir að þekkja vel inn á mannskapinn – en hver er tenging þeirra við Víði?
„Ég er úr Garðinum,“ segir Sigurður. „Ég er fæddur og uppalinn hérna, spilaði með Víði og var aðstoðarþjálfari 2016, þegar Tommy Nielsen var með liðið, og tvö ár eftir það. Síðan leitaði ég á önnur mið áður en ég koma aftur.“
Arnar Smári er úr Vesturbæ Reykjavíkur og er upphaflega KR-ingur. „Ég kom hingað sem leikmaður 2014 og fór að þjálfa yngri flokka samhliða því. Þannig æxlaðist þetta eiginlega. Núna bý ég í Njarðvík.“
Þegar Víðir fór upp í aðra deild árið 2016 var Sigurður aðstoðarþjálfari og spilaði tvo leiki en Arnar Smári var leikmaður Víðis. Víðir lék 2017 til 2019 í annarri deild og endaði í fjórða sæti árið 2019 – en Víðir var í næstneðsta sæti deildarinnar árið 2020 þegar leik var hætt vegna Covid-19, aðeins einu stigi á eftir næsta liði og féll því aftur í þriðju deild.
Sterkur hópur með góða breidd
Þeir Sigurður og Arnar segjast vera með sterkan hóp og góða breidd en þeir leggja mikið upp úr því að vera með leikmenn sem tengjast Garði í liðinu. „Og það hefur tekist vel,“ segir Arnar. „Við töldum það mikilvægt, ef við ætlum að ná árangri, að leikmenn átti sig á því fyrir hvað klúbburinn stendur og fólkið í Garðinum geti tengst við leikmenn. Það er erfitt að púsla saman liði með mönnum sem vita ekki hver tilgangur klúbbsins er. Þannig að við höfum hamrað á því að menn beri virðingu fyrir Garðinum og Víði sem klúbbi, við erum ekki firmalið.“
Er uppbyggingarstarfið gott hjá Víði?
„Annar flokkur er sameinaður, Reynir, Keflavík og Víðir (RKV). Í dag voru tveir strákar úr öðrum flokki á bekknum, annar kom inn á. Uppbyggingastarfið hefur mátt vera meira og það er verið að vinna í því. Það er bara nauðsynlegt fyrir lið eins og Víði að vera með uppalda stráka í byrjunarliðinu.“
Víðir er með yngri flokka en í öðrum flokki sameinast liðin undir merkjum RKV – og það er eins hjá stelpunum segja þeir félagar. „Það er vel haldið utan um yngri flokkana hérna.“
Sigla báðir í sömu átt
Þið deilið starfinu jafnt, er það ekki? Það er enginn aðstoðar- og aðalþjálfari.
„Nei, við skiptum þessu jafnt á milli okkar,“ segir Sigurður.
Gengur það alveg hnökralaust?
„Siggi er rosalega erfiður,“ segir Arnar og þeir félagar skella upp úr en Siggi bætir við: „Yfirleitt erum við nú sammála og ekki oft verið ósammála.“
„Það hefur komið fyrir en við höfum alltaf leyst það,“ segir Arnar.
„Já, það kemur fyrir að annar þarf að bakka og þá er það bara rætt seinna. Yfirleitt erum við bara á sama máli og við reynum að undirbúa okkur vel tímanlega fyrir hverja æfingu og hvern leik. Þannig að við séum á sömu blaðsíðunni,“ segir Sigurður.
Er þetta ekki svolítið meira starf en bara að mæta á æfingu, deila út vestum og skipta í lið?
Sigurður svarar þessu og segir að þeir séu báðir í fullu starfi. „Svo fer nánast allur frítíminn í þetta, símtöl okkar á milli, greina leiki og þess háttar. Við vörðum til dæmis báðir góðum tíma í vikunni við að skoða gamlan leik með KFS, þannig að það er alltaf eitthvað – jafnvel þótt við séum „bara“ í þriðju deildinni.“
Þannig ljúkum við spjalli okkar enda þeir félagar ólmir að komast aftur til leikmanna sinna sem voru enn að syngja og fagna góðum sigri í búningsklefanum.