Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikilvægt að byrja vel - segir þjálfari Keflvíkinga
Sigurður Ragnar náði góðum árangri með Keflavík á sl. tímabili. Hann þarf að byggja upp nýtt lið en miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum. VF-mynd/JPK.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 9. apríl 2023 kl. 12:55

Mikilvægt að byrja vel - segir þjálfari Keflvíkinga

Fyrsti leikur Keflvíkinga gegn Fylki í Árbænum

„Þetta leggst bara vel í mig og okkur og allir eru vel stemmdir fyrir fyrsta leikinn,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflvíkinga sem hefja leik í Bestu-deildinni í knattspyrnu 2023 á 2. í páskum þegar þeir fara í Árbæinn en báðum liðum er spáð neðarlega eða neðstu sætunum. Samkvæmt spám er þetta því botnslagur í upphafi móts.

Miklar breytingar hafa orðið á liði Keflavíkur sem endaði í efsta sæti neðri helmings deildarinnar í fyrra. Nokkrir af lykilleikmönnum hafa horfið á braut en nýir leikmenn hafa komið í staðinn. Nýjustu fréttir í þeim efnum eru að Keflvíkingurinn Stefán Ljubicic er kominn heim og genginn til liðs við sitt uppeldisfélag. Stefán er framherji og reyndi fyrir sér í atvinnumennsku í útlöndum en lék síðast með HK. „Ég er mjög spenntur og ánægður að vera kominn aftur til Keflavíkur. Það er verið að byggja upp liðið eftir breytingar og vonandi gengur það vel hjá okkur. Ég er alla vega bjartsýnn og komandi sumar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum búnir að æfa vel í vetur, það hefur verið nokkuð um meiðsli en erum að endurheimta leikmenn en þó eru einhver forföll hjá okkur. Það gekk vel í fyrra en liðið er mikið breytt og margir nýir leikmenn hjá okkur. Það mun taka tíma að púsla því saman. Góð byrjun skiptir miklu máli, það er spilað mjög ört í byrjun móts, margir leikir á næstu vikum. Vonandi fjölmenna stuðningsmenn á leikina okkar. Fyrsti heimaleikurinnn verður gegn KR 15. apríl á gerfigrasvellinum og það skiptir máli að fá góðan stuðning á pöllunum.“

Hvað með þessar hrakfallaspár fyrir mótið. Keflavík er spáð neðarlega eða botnbaráttu?

„Okkur var líka spáð falli í fyrra en vonandi byrjum við betur en í fyrra. Deildin hefur styrkst og markmið tímabilsins er að halda okkur uppi í Bestu deildinni. Það verður fyrsta markmið en vonandi getum við sett markið hærra þegar líður á tímabilið,“ sagði Siggi Raggi.

Stefán Ljubicic er kominn heim og er bjartsýnn á sumarið.