Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikilvæg stig til Keflavíkur
Mark Sigurbergs í kvöld.
Mánudagur 30. júlí 2012 kl. 21:53

Mikilvæg stig til Keflavíkur

Keflvíkingar unnu 2-1 sigur gegn grönnum sínum frá Grindavík í Pepsi-deildinni í fótbolta í kvöld. Með sigrinum eru Keflvíkingar komnir í 7. sæti deildarinnar með 18 stig en Grindvíkingar eru enn neðstir með 6 stig.

Keflvíkingar voru heldur beittari í sóknaraðgerðum sínum í byrjun leiks í Keflavík í kvöld og oft mátti litlu muna að þeim tækist að skora. Grindvíkingar vörðust vel með fimm manna varnalínu og sóttu svo hratt á Keflvíkinga þegar færi gafst á. Í einni slíkri sókn Grindvíkinga skall hurð nærri hælum en þá náði Scott Ramsey góðu skoti af stuttu færi sem hafnaði í stönginni. Skömmu síðar komst Magnús Björgvinsson framherji þeirra gulu í ákjósanlegt færi en hann hitti hreinlega ekki boltann. Keflvíkingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en Grindvíkingar bitu frá sér undir lok hans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir Arnór Ingvi Traustason og Sigurbergur Elísson hafa náð ansi vel saman og á tíðum í sóknarleik Keflvíkinga í sumar. Sú samvinna sýndi sig vel í fyrsta marki leiksins en þá brunaði Arnór með boltann frá miðju vallarinns og sendi svo fína sendinga á Sigurberg á hárréttum tíma og sá síðarnefndi átti ekki í vandræðum með að setja boltann framhjá Óskari í marki Grindvíkinga, 1-0 eftir klukkutíma leik. Þarna virtist sem björninn væri unninn en Grindvíkingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp. Varamaðurinn Pape Mamadou Faye skoraði skömmu síðar með skalla eftir laglegan undirbúning hjá Magnúsi Björgvinssyni og Grindvíkingar komnir aftur inn í leikinn. Það var svo annar varamaður sem átti eftir að stela senunni en Keflvíkingurinn Magnús Sverrir Þorsteinsson sýndi gamalkunna takta þegar hann skoraði sigurmark leiksins.

Það voru aðeins tvær mínútur eftir af venjulegum leiktíma þegar Magnús fékk boltann við mijðu vallarins og tók á rás. Hann hafði samherja með sér beggja vegna en það var augljóst hvað Magnús ætlaði sér. Hann fór hreinlega alla leið og þrumaði boltanum niður í bláhornið þar sem Óskar Pétursson átti aldrei möguleika. Glæsilegt mark hjá Magnúsi.

Þannig varð lokastaðan í leiknum og Keflvíkingar fögnuðu vel og innilega enda dýrmæt stig í hús. Útlitið verður að teljast svart hjá Grindvíkingum hins vegar og ljóst að liðið þarf á stigum að halda hið snarasta ætli það sér að leika meðal þeirra bestu að ári.

Mikil barátta var í leiknum.

Pape jafnar með laglegum skalla.

Haraldur fyrirliði handsamar markaskorarann Magnús eftir glæsilegt mark hans.

VF-myndir Eyþór Sæmundsson