Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Mikill veiðiáhugi á Suðurnesjum
Júlíus Gunnlaugsson í Flugukofanum við Hafnargötu í Keflavík. VF-myndir/pket.
Mánudagur 7. ágúst 2017 kl. 06:00

Mikill veiðiáhugi á Suðurnesjum

-segir Júlíus Gunnlaugsson í Flugukofanum í Keflavík. Margir vinahópar í veiði og þá eru útlendingar duglegir í strandveiði

„Það er óhætt að segja að það sé mikill veiðiáhugi á Suðurnesjum, allt frá stangveiði yfir í strandveiði,“ segir Júlíus Gunnlaugsson í Flugukofanum við Hafnargötu í Keflavík.

Júlíus opnaði veiðikofann í bílskúrnum sínum fyrir nokkrum árum og þessi staður varð fljótt vinsæll meðal veiðimanna á svæðinu, sérstaklega stangveiðimanna. Hann færði aðeins út kvíarnar og opnaði búðina á góðum stað á Hafnargötu í Keflavík. Fyrir tveimur árum dró Júlíus sig út úr versluninni og fór að starfa við veiðileiðsögn og síðan í flugskýli Icelandair. Kappinn er jú bílamálari og nú málar hann Icelandair flugvélahluti á Keflavíkurflugvelli á milli þess sem hann selur veiðimönnum flugur, spúna og stangir. Fyrr í sumar leitaði hugurinn aftur í búðina sem endaði með því að hann tók við henni á nýjan leik.

Með aukinni veiði við ströndina og á bryggjunni, sérstaklega meðal innflytjenda á svæðinu, hefur kúnnahópurinn í Flugukofanum breikkað. „Það er óhætt að segja það. Íslendingar hafa ekki stundað veiði hér við ströndina en Pólverjar og fleiri útlendingar gera það mjög mikið. Margir þeirra eru hissa á því að það sé ókeypis en þeir veiða sér til matar og koma með heim væna þorska sem þeir veiða hér í sjónum við ströndina. Þeir eru orðnir góðir kúnnar og koma hér á öllum tímum og kaupa búnað til veiðanna, stangir og tilheyrandi og spúna maður, mikið af spúnum,“ segir Júlli og brosir. Þegar blaðamaður VF kíkti í búðina komu nokkrir af þessum nýju viðskiptavinum inn í og fara út stuttu síðar eftir að hafa keypt nokkra spúna. „Svolítið svona sem ég var að tala um,“ segir Júlíus en bætir svo við að Íslendingar taki fram stangirnar hér heima þegar makríllinn kemur. Þá verði líka allt vitlaust í Flugukofanum.

Júlli býður upp á mjög gott úrval af veiðivörum til stangveiði en hann hefur einnig boðið upp á vörur til skotveiði. Þær koma inn síðsumars. Þegar hann er spurður út í stangveiðiáhuga fyrir laxi og silung meðal Suðurnesjamanna segir hann áhugann mikinn. Það séu fjölmargir sem sinni veiðigyðjunni á þann hátt. „Það eru mjög margir veiðihópar á Suðurnesjum. Frændur, vinir og vinnufélagar sem fara saman í lax eða silung, ár eftir ár. Það er gaman að fá þá í heimsókn. Þeir koma og kaupa sér nýja stöng eða hjól, láta laga línur og fylla á fluguboxin,“ segir Júlíus. Það er vegleg kaffivél í búðinni og hún er mikið notuð. Tveir vænir stólar hjálpa eflaust til að veiðimenn ílengjast jafnvel í búðinni. Það er auðvelt að gleyma sér í veiðispjalli.
En talandi um flugur, þá er ekki hægt að sleppa Júlla með að segja okkur frá hvaða veiðiflugur séu vinsælastar.

„Það eru alltaf að bætast við nýjar flugur og nýjar útgáfur af flugum en rauður Frances er alltaf vinsælastur og Sunray sömuleiðis, það er afar skæð fluga,“ segir veiðimaðurinn í búðinni og tekur við nýjum kúnnum sem koma inn. „Mig vantar nýja veiðiskó og það þarf að laga hjólið mitt,“ sagði hann við Júlíus sem tók við honum með bros á vör. Viðskiptavinir Flugukofans eru vanir því. Brosi, hlýjum mótttökum og góðri þjónustu. Er það ekki allt sem verslun þarf að hafa?

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024