Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Mikill uppgangur í handbolta í Reykjanesbæ
Handboltinn hefur fest sig í sessi í Reykjanesbæ. VF-Myndir/JJK
Þriðjudagur 6. nóvember 2012 kl. 13:46

Mikill uppgangur í handbolta í Reykjanesbæ

Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar er í talsverðri sókn um þessar mundir. Um 80 krakkar æfa íþróttina í yngri..

Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar er í talsverðri sókn um þessar mundir. Um 80 krakkar æfa íþróttina í yngri flokkum félagsins. HKR var stofnað í kjölfar frábærs árangurs íslenska landsliðsins á Ólympíuleikunum árið 2008 þar sem liðið varð í öðru sæti. Nú fjórum árum síðar er kominn góður grunnur á barna-og unglingastarfi félagsins. Einar Sigurpálsson, formaður HKR, segir framtíð handboltans í Reykjanesbæ bjarta.

„Það er svolítið skrýtið hvað handbolti er stundaður á fáum stöðum á landinu miðað við vinsældir landsliðsins hjá íslensku þjóðinni. Þetta er þó aðeins að breytast til hins betra. Þetta gengur vel hjá okkur og við einblínum á barna- og unglingastarfið. Við erum með um 80 iðkendur frá 4. flokki og niður í 8. flokk. Við voru stórhuga þegar við stofnuðum deildina og stefndum að því að eignast lið í efstu deild karla eftir tíu ár. Það eru ennþá sex ár til stefnu þannig að markmiðið er það sama. Það eiga margir góðir handboltamenn eftir að koma upp í meistaraflokk eftir örfá ár,“ segir Einar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Handboltinn keppir um iðkendur við mjög rótgrónar íþróttir líkt og knattspyrnu og körfuknattleik. Þó samkeppnin um unga íþróttamenn í Reykjanesbæ sé mikil þá telur Einar að það sé eftirspurn fyrir handbolta í bænum. „Já, það er ekki spurning. Við finnum alltaf fyrir auknum áhuga þegar landsliðinu gengur vel. Reykjanesbær er stórt svæði og hér eiga að geta þrifist fleiri íþróttagreinar ef að íþróttafélögin vinna betur saman. Handboltinn hefur nú verið hér í nokkur ár og er að festa sig í sessi. Það er frítt að æfa handbolta fyrir yngstu krakkana, 6.-8. flokk, og við hvetjum auðvitað alla til að prófa. Okkur hefur ekki gengið nógu vel að fá stelpur í handbolta en það eru nokkrar ungar stelpur í yngsta aldursflokknum og vonandi fjölgar þeim hratt.“

Íþróttafréttamaður Víkurfrétta leit við á æfingu hjá 4.-5. flokki HRK á dögunum og þar skein gleðin úr augunum ungra og efnilegra handboltamanna. Ljóst er að framtíðin í handboltanum í Reykjanesbæ er björt og hver veit nema að framtíðar handboltastjörnum Íslands æfi nú með HKR.

Einn af stofnendum deildarinnar, Guðmundur Kristinn Steinsson, lést í sjóslysi árið 2010. Stofnaður var minningarsjóður í kjölfarið og hefur sjóðurinn verið notaður til að niðurgreiða æfingagjöld fyrir yngstu iðkendur HKR. Þeir sem vilja kynna sér HKR betur er bent á heimasíðu félagsins, www.hkr.is. Æfingar fara fram í íþróttahúsinu við Sunnubraut, í Heiðarskóla og einnig í Myllubakkaskóla.