Mikil uppbygging fyrirhuguð á íþróttasvæði Reynis
Á fundi aðalstjórnar Ksf. Reynis 4. desember s.l. voru kynntar hugmyndir Sandgerðisbæjar um byggingu yfirbyggðs gervigrasvallar og áhorfendaaðstöðu á íþróttasvæði Reynis. Eru þessar hugmyndir afrakstur vinnu bygginganefndar íþróttasvæða sem var skipuð sameiginlega af Sandgerðisbæ og Reyni nú í haust.
Stefnt er að því að byggt verði 72x70m. hús yfir gervigrasvöll. Húsið verður staðsett sunnan við núverandi knattspyrnuvöll og að það verður byggt þannig að hægt verður að stækka það í löglega vallarstærð. Á norðurhlið hússins verður byggð áhorfendastúka fyrir núverandi knattspyrnuvöll og undir henni verður gerð búnings- og salernisaðstaða fyrir húsið og knattspyrnuvöllinn. Bæjarfélagið mun ekki fara fram á hlutdeild Reynis í uppbyggingu hússins og sjá alfarið um rekstur þess.
Aðalstjórn Reynis fagnar þessari tillögu og fellst á hana fyrir sitt leyti. Aðalstjórnin leggur áherslu á að bygginganefnd íþróttasvæða starfi áfram og að fulltrúar Ksf. Reynis sitji þar áfram. Eins leggur aðalstjórninn áherslu á að húsið verði byggt þannig að það sé hægt að stækka það í löglega keppnisstærð og leggur áherslu á það gerist fyrr en seinna. Þá leggur aðalstjórn áherslu á að nauðsynlegar framkvæmdir við núverandi keppnisvöll verði felldar inn í þessar framkvæmdir.
Nákvæm hönnun mannvirkjanna hefur ekki verið unnin, en fer væntanlega af stað um leið og framkvæmdirnar hafa fengið formlegt samþykki í bæjarstjórn. Ef vel gengur ætti að vera hægt að víga þessi nýju mannvirki á árinu 2009.
VF-Mynd/ Jón Örvar Arason - Frá knattspyrnuleik Reynis og ÍBV á síðustu leiktíð.