Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikil prófraun fyrir Grindavík - oddaleikur í kvöld
Miðvikudagur 28. mars 2012 kl. 10:21

Mikil prófraun fyrir Grindavík - oddaleikur í kvöld



Í kvöld leika Grindvíkingar og Ísfirðingar oddaleik um sæti í úrvalsdeild kvenna á næsta tímabili en bæði lið hafa unnið einn leik til þessa. „Þetta er það sem við stefndum á í haust og við erum komin ansi langt á leið með þau markmið okkar,“ segir Jóhann Þór Ólafsson þjálfari liðsins en Grindvíkingar hafa á mjög ungu liði að skipa þetta árið í 1. deildinni. „Það kom bersýnilega í ljós í síðasta leik á Ísafirði að við erum ekki með mikla reynslu. Það var stemning í húsinu og stelpurnar koðnuðu svolítið undan látunum.“

Þær leika gegn KFÍ í oddaleik í kvöld eins og fyrr segir og Jóhann þjálfari segir stelpurnar vera spenntar fyrir verkefninu. „Þær hlakka mikið til. Þetta verður mikil prófraun og mun sýna úr hverju þessar stelpur eru gerðar.“ Vel var mætt á síðasta leik liðanna en Jóhann vonast til að Grindvíkingar muni jafnvel mæta betur og styðja við bakið á stelpunum.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 í Röstinni í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024