Mikil gæði í sundliði ÍRB
Sundfólk ÍRB raðaði inn verðlaunum á Íslands- og unglingameistaramótinu í 25 metra laug sem fram fór í Ásvallalaug í Hafnarfirði um helgina.
ÍRB vann til alls átta íslandsmeistaratitla og níu unglingameistaratitla á Íslandsmótinu í 25 metra laug, þá féllu 57 innanfélagsmet á mótinu og tvö Íslandsmet í aldursflokkum.
Eva Margrét Falsdóttir varð Íslandsmeistari í fjórum greinum á mótinu, Fannar Snævar Hauksson og Guðmundur Leo Rafnsson urðu Íslandsmeistarar í tveimur greinum hvor. Þá náðu fjórir sundmenn (Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir, Guðmundur Leo Rafnsson, Fannar Snævar Hauksson og Eva Margrét Falsdóttir) lágmörkum á Norðurlandameistaramótið sem fram fer í Tartu í Eistlandi 1. til 3. desember.
Íslandsmeistaratitlar: Eva Margrét Falsdóttir; 100 metra fjórsund, 200 metra bringusund, 200 metra fjórsund og 400 metra fjórsund, Fannar Snævar Hauksson; 50 metra baksund og 100 metra flugsund, og Guðmundur Leo Rafnsson: 100 metra baksund og 200 metra baksund.
Unglingalandslið: Ástrós Lovísa Hauksdóttir, Daði Rafn Falsson, Denas Kazulis, Guðmundur Leo Rafnsson og Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir.
Úrvalshópur: Eva Margét Falsdóttir og Fannar Snævar Hauksson.
Afrekslandslið: Eva Margrét Falsdóttir, Fannar Snævar Hauksson og Guðmundur Leo Rafnsson.
Sveitir ÍRB skiluðu góðum árangri
Fannar Snævar Hauksson, Guðmundur Leo Rafnsson, Eva Margrét Falsdóttir og Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir skipuðu blandaða sveit ÍRB í 4x50 metra skriðsundi og náði í bronsverðlaun.
Kvennasveit ÍRB landaði silfurverðlaunum í 4x100 metra fjórsundi kvenna. Í sveitinni voru Ástrós Lovísa Hauksdóttir, Eva Margrét Falsdóttir, Elísabet Arnoddsdóttir og Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir. Kvennasveitin landaði einnig bronsverðlaunum í 4x100 metra skriðsundi kvenna.
Þrátt fyrir ungan aldur náði karlasveit ÍRB þriðja sæti í 4x200 metra skriðsundi þegar hún bætti Íslandsmetið í aldursflokki 13–15 ára karla um tæplega fimmtán sekúndur. Sveitina skipuðu þeir Denas Kazulis, Daði Rafn Falsson, Árni Þór Pálmason og Nikolai Leo Jónsson en sama sveit hafnaði í fjórða sæti í 4x100 metra skriðsundi og bætti Íslandsmetið í aldursflokki 13–15 ára karla um um tæpar tvær sekúndur.