Mikil eftirvænting ríkir fyrir fyrsta leiknum undir stjórn Gunnars
Það ríkir mikil spenna og eftirvænting í herbúðum Njarðvíkinga sem mæta Gróttu á heimavelli í kvöld. Leikurinn er sá fyrsti undir stjórn nýs aðalþjálfara, Gunnars Heiðars Þorvaldssonar, í Lengjudeild karla í knattspyrnu en Njarðvíkum hefur ekki gengið sem skildi í deildinni í ár.
Víkurfréttir litu inn á fyrstu æfingu hjá Gunnari og tóku létt spjall við Arnar Frey Smárason, aðstoðarþjálfara Gunnars, fyrir leikinn mikilvæga í kvöld.
Gunnar á að baki farsælan feril sem leikmaður og kemur með léttleika Eyjamannsins inn í hóp Njarðvíkur en það er kannski það helsta sem hefur skort á frammistöðuna í sumar, að Njarðvíkingar hafi gaman af hlutunum. Fyrstu tveir leikirnir sem Gunnar stýrir Njarðvíkingum eru heimaleikir, í kvöld klukkan 19:15 gegn Gróttu og síðan verður væntanlega ekki síðri hörkuleikur þegar Grindvíkingar mæta til Njarðvíkur á laugardaginn eftir viku, Suðurnesjaslagur af bestu sort.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, tók myndirnar og viðtalið við Arnar sem má sjá í spilaranum hér að neðan.