Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikið um að vera í Iceland Express deild karla
Fimmtudagur 7. febrúar 2008 kl. 12:11

Mikið um að vera í Iceland Express deild karla

Fimm leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild karla í kvöld þar sem KR getur jafnað Keflavík á toppi deildarinnar. Keflavík mætir ÍR í Seljaskóla og Njarðvík tekur á móti KR í Ljónagryfjunni. Takist KR að ná sigri í Njarðvík og Keflavík tapar í Seljaskóla verða tvö lið efst og jöfn að stigum á toppi deildarinnar. Þá tekur Grindavík á móti Tindastól, Fjölnir fær Skallagrím í heimsókn og Snæfell tekur á móti Hamri.

 

KR á harma að hefna í Ljónagryfjunni en Njarðvíkingar slógu þá út úr Lýsingarbikarkeppninni á dögunum og rimmur þessara liða eru jafnan spennuþrungnar. KR hafði sigur í fyrri deildarleik liðanna í DHL-Höllinni með þriggja stiga flautukörfu frá landsliðsmanninum Helga Má Magnússyni svo von er hörkuleik í Ljónagryfjunni. Egill Jónasson verður ekki með í Njarðvíkurliðinu í kvöld sökum meiðsla svo mikið mun mæða á miðherjanum Friðriki Stefánssyni.

 

Í Grindavík mætir Kristinn Friðriksson með lærisveina sína frá Sauðárkróki en Kristinn þjálfaði Grindvíkinga um hríð og er því öllum hnútum kunnugur í Röstinni. Fyrri leikur liðanna fór 78-90 fyrir Grindavík þegar liðin mættust á Króknum í nóvember.

 

Keflvíkingar heimsækja ÍR í Seljaskóla en ÍR-ingar hafa verið að finna taktinn að undanförnu og lögðu m.a. Njarðvíkinga í Seljaskóla á dögunum. ÍR-ingar fengu þó ærlegan skell gegn Keflavík í Sláturhúsinu þann 1. nóvember en lokatölur þess leiks voru 1110-79 Keflvíkingum í vil.

 

Aðrir leikir kvöldsins

Snæfell-Hamar

Fjölnir-Skallagrímur

 

Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 og verður viðureign Njarðvíkur og KR sýnd í beinni útsendingu á SÝN.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024