Mikið fjör á krílamóti UMFN
Það var líf og fjör á krílamóti júdódeildar UMFN sem haldið var í nýrri aðstöðu júdódeildarinnar.
Fjölmörg börn á aldrinum fjögurra til ellefu ára tóku þátt í mótinu. Öll börnin voru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni og skemmtu sér mjög vel.
Í lok móts voru börnin leyst út með verðlaunum og hrósi. Gaman að sjá hvað þjálfarar yngstu þátttakandanna, Jóel Helgi og Daníel Dagur, hafa unnið frábært starf með þessum hressu krökkum.
Stúlkur í sókn
Mikil aukning hefur verið hjá júdódeild UMFN undanfarin misseri. Það skemmtilegasta við þessa fjölgun er að svo virðist sem að mikil vakning sé í að stúlkur taki þátt í íþróttinni. Nú er svo komið að fjölgunin er svo mikil að þær hafa yfirtekið einn æfingahópinn og stofnaður hefur verið sérstakur stúlknahópur. Þessi hópur er skipaður stúlkum á aldrinum ellefu til sextán ára allsstaðar af Suðurnesjunum.
Þjálfarar hópsins, þau Guðmundur Stefán Gunnarsson og Heiðrún Fjóla Pálsdóttir, eru gríðarlega ánægð og segja að þessi hópur sé skipaður öflugum og sérlega efnilegum einstaklingum.