Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Mikael hættur með Njarðvík?
Mikael á hliðarlínunni hjá Njarðvík í leik gegn Víði í sumar. Guðjón Árni Antoníusson (snýr baki í myndavélina) stýrði Víðismönnum – hann og spilandi þjálfari Víðis, Hólmar Örn Rúnarsson, hættu með Víðisliðið í gær. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 5. nóvember 2020 kl. 10:52

Mikael hættur með Njarðvík?

Háværar raddir heyrast þess efnis að Mikael Nikulásson sé ekki lengur þjálfari Njarðvíkinga í knattspyrnu. Mikael var ráðinn til félagsins fyrir þetta tímabil en árangur liðsins náði ekki þeim takmörkum sem höfðu verið sett fyrir tímabilið. Stjórn knattspyrnudeildar Njarðvíkur bíður með að tjá sig um þjálfaramál að svo stöddu en tilkynning frá stjórninni er væntanleg í næstu viku.

Fyrirliðinn Marc McAusland, sem gegndi stöðu aðstoðarþjálfara í sumar, verður áfram með Njarðvíkingum á næsta tímabili og mun einnig þjálfa annan flokk liðsins.

Nafn hins reynslumikla Bjarna Jóhannssonar hefur verið nefnt í starf þjálfara Njarðvíkinga en hann hefur þjálfað Vestra á Ísafirði síðustu ár. Svo er spurning hvort Njarðvíkingar leiti ekki í heimabyggð og heyri ekki í þeim Hólmari Erni Rúnarssyni og Guðjóni Árna Antoníussyni sem hættu með Víðismenn í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Uppfært kl. 12:03:

Ósáttur Mikael segir í viðtali við Fótbolta.net að hann hafi ekki átt von á þessari „hnífstungu í bakið“ en hann hafi fengið símtal í gær þess efnis að ákveðið hafi verið að fara í viðræður við annan þjálfara. Mikeal telur það fullvíst að Bjarni Jóhannsson sé að fara að taka við liðinu og segir: „Bjarni mun gera fína hluti með þetta lið örugglega og er að fá frábært bú í hendurnar“.