Miggins sendur heim
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur ákveðið að ganga ekki til samninga við Jimmy Miggins, en hann hefur verið á reynslu hjá félaginu síðustu tvær vikur. Leikmaðurinn, sem var að ná sér eftir erfið meiðsli, stóð ekki undir væntingum og heldur til heim á morgun.
Vonast var til að hann myndi ná sér á strik, en Miggins var stórstjarna í bandaríska háskólaboltanum áður en hann lenti í hnémeiðslum sem urðu þess valdandi að hann gat ekki spilað körfubolta í heilt ár.
Á heimasíðu félagsins segir að niðurstaða þjálfara og stjórnar var sú að hann væri ekki sá leikmaður sem liðið þarfnast, sérstaklega þegar horft er til Evrópukeppninnar. Keflvíkingar eru nú að leita að öðrum leikmanni til að fylla í skarðið.
VF-mynd/Hilmar Bragi: Miggins átti ekki góðan leik gegn Njarðvík á sunnudag.