Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

MG10 yfirgefur Grindavík - Jón Axel og Ingvi snúa heim
Föstudagur 2. janúar 2015 kl. 11:40

MG10 yfirgefur Grindavík - Jón Axel og Ingvi snúa heim

Miklar hræringar í Grindavík

Miklar breytingar verða við áramót í körfuboltanum í Grindavík. Hjá karlaliðinu mun Magnús Þór Gunnarsson hverfa á braut, en ástæðan ku vera persónuleg. Bræðurnir Jón Axel og Ingvi Guðmundssynir munu svo snúa aftur til liðsins eftir dvöl í skóla í Bandaríkjunum, en þeir munu spila með liðinu út tímabilið. Hjá kvennaliðinu mun svo Rachel Tecca ekki snúa til baka, en í hennar stað kemur Cristina King. Hér að neðan má sjá tilkynningu frá Körfuknattleiksdeild Grindavíkur.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur óskar öllum landsmönnum og konum gleðilegs nýs árs og byrjar árið með fréttabombum. Það er okkur mikið ánægju efni að tilkynna að bræðurnir Jón Axel og Ingvi Guðmundssynir hafa snúið til baka frá Bandaríkjunum og munu spilað með liði Grindvíkinga það sem eftir lifir þessa móts. Það vita það allir að Jón Axel er orðin þekkt stærð í körfubolta hér á landi en kannski færri sem þekkja til Ingva en þar er mikið efni á ferðinni. Báðir munu þeir styrkja okkar lið gríðarlega og það er alltaf gaman þegar heimamenn snúa til baka.

Hinsvegar hafa körfuknattleiksdeildin og Magnús Gunnarsson komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hann hafi lokið leik með Grindavík. Ástæðan er persónuleg fyrir Magga og vill Körfuknattleiksdeildin þakka honum þennan stutta tíma sem hann dvaldi hjá okkur. Það er klár eftirsjá í Magga fyrir okkur og þó að tími hans hjá okkur hafi ekki verið lengri en raun ber vitni þá skilur Maggi eftir sig góðar minningar fyrir okkur og er það klárlega ósk okkar að honum vegni vel hvar sem hann endar.

Þá var ákveðið stuttu fyrir jól að Rachel Tecca myndi ekki snúa til baka til Grindavíkur eftir jól og hefur verið gerður samningur við nýjan leikmann fyrir kvennaliðið. Sú heitir nokkuð mörgum nöfnum en við látum þessi tvö nægja, Cristina King. Hún er alhliða leikmaður og eins og alltaf með erlenda leikmenn eru miklar væntingar bundnar við hana. Pappírsvinna fyrir hennar hönd hófst fyrir jól og er reiknað með henni snemma í næstu viku. Fleiri eru fréttirnar ekki að sinni frá Grindavíkinni og vonandi verða þær ekki fleiri heldur, nema þá góðar!

Stjórn KKD Grindavíkur

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024