Metnaður og léttleiki eru okkar slagorð
Glæsilegt Sparisjóðsmót í sundi fór fram í Vatnaveröld um síðustu helgi þar sem um 600 sundmenn víðsvegar að af landinu tóku þátt. Mótið er eitt það stærsta sem haldið hefur verið hérlendis og kvaðst Steindór Gunnarsson yfirþjálfari ÍRB gríðarlega sáttur við framkvæmd mótsins sem og árangur sundmanna í mótinu. Á föstudeginum voru sundmenn ÍRB í feiknastuði og settu tvö ný Íslandsmet. Steindór sagði mótið einstaklega vel heppnað og hrósaði í hástert umgjörð mótsins en hann sagði samstarf stjórnarmanna ÍRB, starfsfólk sundlaugar, iðkenda og foreldra þeirra hafa gengið vonum framar.
,,Að svona stórt mót skuli ganga hnökralaust fyrir sig er staðfesting á virkni allra þátta í starfi ÍRB. Það er mikil og góð samvinna sem á sér stað í félaginu og það lýsir kannski best þeirri bjartsýni og framtakssemi sem ríkir hjá okkur að ráðast í mót af þessari stærðargráðu,” sagði Steindór í samtali við Víkurfréttir. Til stóð að halda Aldursflokkamót Íslands í Hafnarfirði en af óviðráðanlegum orsökum var það ekki hægt. Sundsamband Íslands leitaði þá til ÍRB sem svaraði kallinu og nú í júní um AMÍ fara fram í Vatnaveröldinni í annað sinn á þremur árum.
,,Það er mjög jákvætt fyrir okkur að geta sagt já og halda mótið með jafn skömmum fyrirara. AMÍ verður með öðru sniði í sumar en síðustu ár. Keppni verður sú sama en fyrirkomulagið, stigagjöfin og fleira verður með öðrum hætti svo við verðum í raun að prufukeyra nýtt mót sem er góð áskorun fyrir félagið. Síðasta helgi var líka gíð áskorun og um 600 manns kepptu hjá okkur og það var alveg magnað hvað vel tókst til,” sagði Steindór og taldi það forréttindi að starfa innan ÍRB.
,,Að geta þjálfað og æft nokkuð áhyggjulaust því stjórn og þjálfarar eru svo virkir ásamt foreldrum er ómetanlegt fyrir ÍRB. Okkar markmið eru að hafa marga í sundi, njóta lífsins og standa okkur vel. Metnaður og léttleiki eru okkar slagorð!”
Árangur sundmanna ÍRB lét svo ekki á sér standa í Sparisjóðsmótinu. Erla Dögg Haraldsdóttir og Árni Már Árnason áttu stigahæstu sundin á mótinu. Á föstudeginum fór Erla Dögg á kostum er hún bætti Íslandsmetið í 200m. bringusundi kvenna á tímanum 2.26.83 en gamla metið var 2.30.64 mín. og því varð Erla Dögg fyrst íslenskra kvenna til þess að synda 200m. bringusundu á undir 2.30.00 mín. Magnaður árangur og ekki var hann síðri hjá boðssundssveit ÍRB í karlaflokki. Boðssundssveitin sló svo Íslandsmet í 4x100m. fjórsundi en gamla metið hafði staðið frá árinu 1998 og var í eigu SH. Kapparnir í boðssundsveitinni komu í mark á tímanum 3.47.13 mín. en sveitina skipuðu þeir Árni Már Árnason, Birkir Már Jónsson, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Guðni Emilsson.
Enn eiga sundmenn frá ÍRB möguleika á því að tryggja sér ólympíusæti. Eins og stendur er Erla Dögg eini sundmaður ÍRB sem er á leið til Peking en þeir Birkir Már og Árnir Már munu á næstu vikum reyna við lágmörkin í skriðsundi. Árni mun reyna við lágmörkin í 50m. skriðsundi og Birkir í 200m. skriðsundi. ,,Síðustu helgina í maí verður alþjóðlegt mót SH í Laugardal og þar munu strákarnir fyrst reyna við lágmörkin. Þaðan liggur leiðin til Frakklands og síðan verður keppt í nokkrum löndum til viðbótar með það að augnamiði að ná lágmörkunum,” sagði Steindór svo ljóst er að í mörg horn verður að líta í sumar fyrir yfirþjálfara ÍRB. ,,Núna er bara pressa, niðurtalningin er hafin og strákarnir eru klárir í slaginn.”