Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 22. mars 2000 kl. 14:09

Metin falla á vellinum

Innanhúsmeistaramót Íslands var haldið á Keflavíkurflugvelli um síðustu helgi. Mótið fór mjög vel fram og var mótshöldurum, Sunddeild Keflavíkur, til mikils sóma. Tvö Íslandsmet og 2 stúlknamet litu dagsins ljós. Kvennasveit SH setti bæði Íslandsmetin og Íris Edda Heimisdóttir setti bæði stúlknametin. Keflvíkingar náðu mjög góðum árangri á mótinu. Allir sundmenn Keflavíkur bættu sinn fyrri árangur sem kom þeim ýmist á verðlaunapall eða í sex manna úrslit mótsins. Íris Edda Heimisdóttir sigraði glæsilega í þremur greinum og setti 2 stúlknamet. Einnig hafnaði Íris Edda í öðru sæti í 200 metra fjórsundi á mjög góðum tíma. Magnús Sveinn Jónsson bætti sig stórlega og hafnaði í öðru sæti í 400 metra fjórsundi og í þriðja sæti í 200 metra fjórsundi. Sömu sögu er að segja af þeim Elvu Björk Margeirsdóttur og Guðlaugi Má Guðmundssyni sem bættu sig allverulega, komust á verðlaunapall og tryggðu sér með frammistöðu sinni sæti í unglingalandsliði Íslands ásamt Írisi Eddu og Díönu Ósk Halldórsdóttur. Ungu krakkarnir í liðinu stóðu sig vonum framar og komust nokkrir þeirra í úrslit og ber þá helst að nefna þá Jón Gauta Jónsson og Birki Má Jónsson sem áttu afbragðs sund um helgina ásamt öðrum. Liðsmenn Sunddeildar UMFN stóðu sig sérlega vel á mótinu. Fjögur verðlaun í einstaklingsgreinum ásamt einum í boðsundi. Njarðvíkingarnir bættu síðan sinn fyrri árangur í nánast öllum tilvikum. Frammistaðan var það góð að sundmennirnir voru nánast alltaf í sex manna úrslitum í sínum bestu greinum. Bestum árangri Njarðvíkinga náði Jón Oddur Sigurðsson en hann varð þriðji í 50m og 100m bringusundi og 100m fjórsundi. Með þessum árangri tryggði hann sér enn betur sæti sitt í unglingalandsliðinu. Á næstu dögum mun liðið fara í keppnisferð til Edinborgar. Sigurbjörg Gunnarsdóttir náði 3. sæti í 50m flugsundi. Aðrir liðsmenn deildarinnar stóðu sig einnig mjög vel og voru ekki langt frá verðlaunasæti. Karlasveit UMFN hafnaði í 3. sæti í 4 x 200m skriðsundi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024