Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Met hjá Martin er nýliðarnir lögðu Keflavík
Miðvikudagur 12. desember 2007 kl. 22:29

Met hjá Martin er nýliðarnir lögðu Keflavík

Monique Martin stóð í ljósum logum í DHL-Höllinni í kvöld þegar hún nánast ein síns liðs skaut nýliðum KR á topp Iceland Express deildar kvenna. Martin setti Íslandsmet í stigaskori í úrvalsdeild kvenna er hún sallaði niður 65 stigum yfir ráðlausa Keflvíkinga. Jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik en í þeim síðari léku KR-ingar á als oddi og hreinlega völtuðu yfir Keflvíkinga. Lokatölur leiksins voru 90-81 KR í vil og er óhætt að segja að vallargestir hafi orðið vitni að magnaðri flugeldasýningu í boði Monique Martin. Með sigrinum í kvöld eru nýliðar KR komnir á topp deildarinnar.

 

,,Við komum og gerðum það sem við höfum verið að fara í gegnum á æfingum og við vissum að ef við myndum gera það þá gætum við unnið leikinn,” sagði Monique Martin í leikslok. ,,Við erum að leggja mikið á okkur og erum að uppskera eftir því,” sagði Martin sem hefur aldrei áður gert jafn mörg stig í einum leik. Þá eru þessi 65 stig hjá Martin met í úrvalsdeild kvenna hér á landi. Martin er fyrsti leikmaðurinn hér á landi sem gerir yfir 60 stig í efstu deild kvennaboltans.

 

Leikurinn fór fjörlega af stað og fyrstu fimm körfur leiksins komu úr þriggja stiga körfum. Monique og Ingibjörg Elva gerðu sínar hvorar tvær þriggja stiga körfurnar fyrir KR og Keflavík áður en TaKesha Watson kom Keflavík í 6-9. Skemmtileg byrjun og liðin settu strax tóninn um að fjörlegur leikur væri í vændum.

 

Keflavík var skrefinu á undan í upphafi leiks og leiddi 27-30 að loknum fyrsta leikhluta. Monique Martin var þá komin með 25 stig og hvíldi síðustu mínútu leikhlutans og þá datt botninn úr leik KR. Monique gerði einnig fyrstu 17 stig KR í leiknum.

 

Margrét Kara Sturludóttir fékk snemma sína þriðju villu í liði Keflavíkur í 2. leikhluta og varð að hvíla sig lítið eitt. Nýliðar KR breyttu þá yfir í svæðisvörn og skyndilega snérist leikurinn þeim í hag. Á kafla gerði KR 13 stig gegn 3 frá Keflavík og staðan orðin 43-35. Liðin gengu svo til leikhlés í stöðunni 45-37.

 

Martin var með 34 stig í liði KR í hálfleik en stigahæst hjá Keflavík var TaKesha Watson með 13 stig. Töluverða athygli vakti að KR keyrði vel í bakið á Keflvíkingum sem eru þekktari fyrir það leikbrigði en KR virtist líða vel í þessum hraða leik og refsaði Keflavík við hvert tækifæri eins og þaulreynt úrvalsdeildarlið en ekki nýliðar. Athyglisvert þar sem Keflavík er með þétta bakvarðasveit en KR mun hávaxnara lið.

 

Nýliðar KR komu grimmir til síðari hálfleiks og breyttu stöðunni í 57-39 með þriggja stiga körfu frá Sigrúnu Ámundadóttur og fóru hreinlega á kostum. Keflvíkingar tóku við þetta leikhlé en það hafði ekki tilsettan árangur og náði KR að auka muninn í 20 stig og stóðu leikar 71-51 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Þá fékk Margrét Kara sína fjórðu villu í Keflavíkurliðinu sem heilt yfir var ráðalaust gegn grimmd og ákveðni nýliðanna.

 

Keflavík hóf síðasta leikhlutann af krafti og gerði 11 stig gegn tveimur frá KR á fyrstu mínútunum en KR hélt sjó og svaraði að bragði í stöðuna 80-65. Monique Martin skoraði nánast að vild í kvöld og gerði körfur í öllum regnbogans litum. Keflavík átti ekkert svar gegn mögnuðum leik Martin og því urðu lokatölur leiksins 90-81 KR í vil sem nú sitja á toppi deildarinnar með 18 stig, jafn mörg og Keflavík, en nýliðarnir hafa betur í innbyrðisviðureignum liðanna. Martin gerði ekki einvörðungu 65 stig í kvöld heldur tók hún einnig 11 fráköst og hitti úr 12 af 13 vítaskotum sínum í leiknum.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Mynd/ [email protected] - Keflvíkingar gerðu fátt annað en elta Monique Martin á röndum í kvöld, þær réðu ekkert við hana.

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024