Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Menn hræddir við aflraunir
Hannes Þorsteinsson hefur sigrað keppnina undanfarin tvö ár.
Miðvikudagur 4. september 2013 kl. 13:55

Menn hræddir við aflraunir

- Sterkasti maður Suðurnesja blásinn af

Keppnin um sterkasta mann Suðurnesja hefur verið haldin sleitulaust frá árinu 2003. Nú virðist sem breyting verði þar á en keppnin hefur verið blásin af vegna dræmrar þátttöku. Sturla Ólafsson, formaður lytingardeildar Massa hefur haft umsjón með keppninni undanfarin ár. Hann hefur sjálfur tekið þátt sjö sinnum í keppninni og þekkir aflraunir inn og út. Hann hefur sigrað keppnina fimm sinnum. „Mér sýnist svo að menn séu meira bara „sterkir“ til sýnis hérna,“ segir Sturla í samtali við Víkurfréttir en það er augljóst að hann er hissa á áhugaleysinu.

Hann segir að menn séu líklega hræddir við að prófa eða við það að mistakast. „Ég var sjálfur alveg með hnút í maganum þegar ég prófaði fyrst. Það mætir enginn alveg tilbúinn í sitt fyrsta mót. Þetta kemur bara með reynslunni,“ segir Sturla. Aðeins þrír keppendur voru skráðir til leiks í ár en sem miðvið má nefna að 14 keppendur spreyttu sig árið 2008. Í fyrra var botninum náð en þá skráðu sig sex keppendur til leiks.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sturla segir að nægur sé efniviðurinn á Suðurnesjum. Á svæðinu séu margir öflugir menn sem geti gert góða hluti í aflraunum. „Það vantar bara að menn taki af skarið og láti vaða. Við lærum jú af mistökunum. Ef hugsunarhátturinn er svona þá er alltaf hætta á að fyrsta mótið verði þitt síðasta. Þannig er það í öllum íþróttum.“

Verðlaun hafa yfirleitt verið vegleg og mikil stemning hefur myndast á mótunum. Sturla segist geta hugað sér að hafa mótið opið á næsta ári ef ekkert breytist. Þá sé þó hætta á öflugum keppendum annars staðar frá sem fæli jafnvel frekar heimamennina frá.