Melanie Rendeiro með glæsimark
Keflvíkingar gerðu jafntefli við Stjörnuna í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í gær. Melanie Claire Rendeiro skoraði glæsimark í fyrri hálfleik en Stjarnan jafnaði í þeim seinni.
Leikurinn var frekar jafn framan af en hvorugt lið var að skapa sér nein færi af viti. Á 34. mínútu geystist Dröfn Einarsdóttir hins vegar upp kantinn og átti fína sendingu á Rendeiro sem skoraði með góðu skoti og kom Keflavík í forystu.
Í seinni hálfleik komust Stjörnukonur meira inn í leikinn og höfðu betri stjórn á leiknum. Keflvíkingar sóttu hratt þegar færi gáfust en stundum vantaði herslumuninn á að klára sóknirnar.
Þegar líða tók á seinni hálfleikinn jafnaði Stjarnan með marki af ódýrari gerðinni (74') þegar Sædís Rún Heiðarsdóttir skoraði beint úr hornspyrnu. Slæm mistök hjá Vera Varis í marki Keflavíkur sem var vel staðsett og virtist hafa boltann í hendi sér en misreiknaði sig eitthvað og inn lak boltinn.
Hvorugt lið átti ákjósanleg færi eftir það og að lokum þurftu Keflvíkingar að sætta sig við jafntefli.
Keflavík situr í fallsæti sem stendur, jafnt ÍBV að stigum en Eyjakonur hafa örlítið betra markahlutfall en Keflvíkingar (tvö mörk og fleiri skoruð).
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, náði seinni hálfleik í Keflavík og tók myndirnar sem eru í myndasafni neðst á síðunni.