Meistararnir tapa í „Fjárhúsinu“
Snæfell lagði Keflavík, 87-82, í Intersport-deildinni í kvöld og hefndi þannig fyrir ófarirnar í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor.
Keflvíkingar hófu leikinn betur og náðu snemma 8 stiga forskoti, 8-16. Heimamenn í „Fjárhúsinu“ fundu sig þó í öðrum leikhluta og höfðu naumt forskot, 39-38 í hálfleik. Mike Matthews lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík, en lenti í villuvandræðum strax í byrjun og náði ekki að skila nema 11 stigum. Hann var þó nýkominn til landsins og á eflaust eftir að stimpla sig betur inn í næstu leikjum.
Vörn gestanna átti ekkert svar gegn ferskum Snæfellingum þar sem Sigurður Þorvaldsson fór fremstur og lét rigna 3ja stiga körfum. Hann setti sex slíkar úr jafnmörgum tilraunum og þeir Pálmi Sigurgeirsson og Pierre Green settu þrjár hvor.
Snæfellingar héldu forystunni út seinni hálfleikinn þrátt fyrir að munurinn á liðunum væri aldrei afgerandi. Þegar 24 sek lifðu af leiknum var munurinn aðeins 2 stig, en nær komust Keflvíkingar ekki.
„Þeir voru bara betri en við í kvöld og unnu,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga í leikslok og bætti því við að þeir þyrftu að laga ýmislegt fyrir næsta leik.