Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Meistararnir niðurlægðir!
Föstudagur 9. nóvember 2007 kl. 22:41

Meistararnir niðurlægðir!

Íslandsmeistarar KR fengu ærlega ráðningu í Sláturhúsinu í kvöld og héldu inn í höfuðborgina með 22 stiga tap á bakinu. Heimamenn í Keflavík léku við hvern sinn fingur er þeir yfirspiluðu meistarana úr Vesturbænum. Lokatölur leiksins voru 107-85 Keflavík í vil þar sem hver einasti leikmaður Keflavíkur barðist af miklum krafti og liðið að spila langbesta körfuboltann á landinu í dag.

 

„Þeir hættu fannst mér svolítið snemma í seinni hálfleik en við gerum okkur grein fyrir því að þetta lið KR-inga er mjög gott en að vinna þá svona stórt á heimavelli er mjög gott hjá okkur. Þetta var ekki þeirra dagur í KR en ég er mjög ánægður með mína menn,“ sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga í samtali við Víkurfréttir í leikslok.

 

Leikurinn fór fjörlega af stað og ljóst að spennandi leikur væri framundan. Keflavík komst í 17-11 en Joshua Helm sá til þess að KR væri ávallt inn í leiknum með góðri baráttu í teignum. Darri Hilmarsson kom svo KR í 22-23 með þriggja stiga körfu en það var Ísfirðingurinn Sigurður Þorsteinsson sem kom öllum á óvart með flautu þriggja stiga körfu nánast frá miðjum leikvellinum og breytti stöðunni í 28-26 Keflavík í vil. Sigurður fagnaði körfunni vel en þetta var eina þriggja stiga skotið hans í leiknum enda þekktari fyrir að láta finna fyrir sér í teignum.

 

Bobby Walker var að gera fína hluti fyrir Keflavík í 2. leikhluta en þegar KR lokaði vel á hann tóku aðrir liðsmenn Keflavíkur af skarið. Á meðan voru KR-ingar að leita of mikið af Helm og fáir að stíga upp hjá meisturunum og því hvíldi of mikið á Helm. Anthony Susnjara fékk sína fjórðu villu í 2. leikhluta og hélt því á bekkinn og Sigurður Þorsteinsson kom inn í hans stað. Sigurður lék vel í kvöld og barðist af miklum móð.

 

Liðin gengu til leikhlés í stöðunni 47-42 þar sem Bobby Walker var kominn með 19 stig í Keflavíkurliðinu en Joshua Helm var með 14 hjá KR.

 

Síðari hálfleikur var svo stórsýning ein hjá heimamönnum þar sem þeir hreinlega rúlluðu yfir KR. Eftir þrjár mínútur í þriðja leikhluta höfðu Keflvíkingar gert 9 stig gegn einu frá KR. Leiðin lá bara niður á við eftir þetta hjá Íslandsmeisturunum. KR réð ekkert við Keflvíkinga sama í hvaða leik það var á vellinum, Keflavík var sterkari maður á mann, við þriggja stiga línuna og í teignum og hreinlega í öllum þáttum íþróttarinnar.

 

Rétt svona til að nudda salti í sárin áttu Keflvíkingar aftur flautukörfu og nú þegar þriðja leikhluta lauk. Þar var að verki Magnús „vélbyssa“ Gunnarsson með þriggja stiga körfu, hvað annað? Staðan fyrir fjórða leikhluta var 75-61 og á þessum tímapunkti er óhætt að segja að Keflavík hafi verið búið að vinna leikinn.

 

Smá von kviknaði um að KR kæmist aftur inn í leikinn þegar Brynjar Björnsson opnaði með þriggja stiga körfu fyrir KR og staðan 75-64 en það virkaði sem olía á eld Keflavíkur. Heimamenn tóku sig þá til og breyttu stöðunni í 87-67 með þriggja stiga körfu frá besta manni vallarins, Bobby Walker.

 

Síðustu fimm mínútur leiksins var þetta einvörðungu spurning um hve stór sigur Keflavíkur yrði og hann stóð heima í 22 stigum. Lokatölur 107-85 Keflavík í vil þar sem Bobby Walker gerði 37 stig, tók 6 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hann var klárlega maður leiksins en í heild var allt lið Keflavíkur að spila vel. Félagaranir Gunnar Einarsson og Sigurður Þorsteinsson komu baráttuglaðir inn af bekknum og Tommy Johnson var ávallt ógnandi. Þá voru þeir Magnús Gunnarsson og Jón N. Hafsteinsson skínandi góðir.

 

Hjá KR var Joshua Helm eini með lífsmarki í fyrri hálfleik og gerði hann þá 14 stig. Hann lauk leik með 17 stig og 11 fráköst og var frammistaða hans í síðari hálfleik fremur döpur. Fannar Ólafsson gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana eins og honum einum er tamt og ef ekki á illa að fara hjá KR er vissara fyrir liðsmenn Íslandsmeistaranna að fara að taka Fannar sér til fyrirmyndar.

 

Avi Fogel reyndist stigahæstur hjá KR með 25 stig en megnið af þeim stigum kom þegar Keflavíkursigurinn var í orðinn nokkuð ljós.

 

Keflvíkingar eru því með fullt hús stiga á toppi deildarinnar og fátt eða ekkert sem virðist geta skákað þeim um þessar mundir. Keflavík mætir næst nýliðum Stjörnunnar sem einnig eru í toppformi um þessar mundir enda lögðu þeir Njarðvíkinga á fimmtudag. KR leikur svo gegn ÍR í sannkölluðum Reykjavíkurslag í næstu umferð.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Myndir/ Þorgils Jónsson og Jón Björn Ólafsson

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024