Meistarar berjast um sæti í Höllinni
Breiddin mun skipta sköpum að mati Jóns Björns hjá Karfan.is.
Á sunnudaginn kemur mætast núverandi bikarmeistarar Keflvíkinga og núverandi Íslandsmeistarar Grindvíkinga í undanúrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í Keflavík og má vænta þess að barist verði til síðasta blóðdropa í sláturhúsinu þar sem Laugardalshöllin sjálf er innan seilingar. Keflvíkingar hafa orðið bikarmeistarar sex sinnum í karlaflokki en Grindvíkingar eiga fjóra bikara í skápnum í Röstinni.
Hjá kvennaliðunum er aðeins eitt Suðurnesjalið eftir en það eru Keflvíkingar. Þær mæta Snæfellingum fyrir vestan á morgun, föstudag. Alls hafa Keflvíkingar fagnað bikarmeistaratitli 12 sinnum og því rík sigurhefð hjá liðinu. Síðast lyftu þær bikarnum árið 2011 en Njarðvíkingar eru núverandi bikarmeistarar.
Við fengum einn helsta körfuboltasérfræðing landsins, Jón Björn Ólafsson hjá Karfan.is, til þess að rýna í leikina en hann segir breiddina geta ráðið úrslitum í báðum viðureignum að þessu sinni.
Keflavík-Grindavík karla:
„Eftir tap gegn Keflavík í deild hristu Grindvíkingar slenið af sér og lögðu Snæfell í Stykkishólmi í næsta leik á eftir. Keflavík hefur svo í síðustu tveimur leikjum lagt Stjörnuna og Grindavík. Þarna mætast því tvö Suðurnesjalið með bringuna þanda og það í undanúrslitum bikarsins. Ógerningur er að spá fyrir um úrslit þessa leiks en ef strákarnir hans Sverris Þórs ætla reglulega að hleypa á sig 100 stigum og meira þá fara þeir ekkert í Höllina og þaðan af lengra. Að sama skapi verða Keflvíkingar að koma grimmari inn af bekknum, byrjunarliðið eitt og sér klárar kannski bikarinn fyrir Keflavík, mögulega, en það er hæpið að það sé uppskriftin að Íslandsmeistaratitli. Bekkurinn verður að reima skóna fastar!“
Snæfell-Keflavík kvenna:
„Hólmarar hafa ekki haft erindi sem erfiði gegn Keflavík þetta tímabilið. Ég fæ ekki séð af hverju svo ætti að vera núna, það er hungur til staðar í liði Keflavíkur eftir rýra uppskeru á síðasta tímabili. Þó Snæfell sé með heimavallarréttinn þá er dýptin í liði Keflvíkinga mun meiri og það skilar þeim í Laugardalshöll. En þetta er bara einn leikur og miklu meira undir en tvö stig. Keflavík verður að vinna með breiddina í þessum leik og teygja eins vel á Snæfellsliðinu og þær geta, fá fámennan en sterkan hóp Snæfells í hlaupaleik og ef það hefst mun Keflavík spila til úrslita.“