Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Meistaraformið fundið í Sláturhúsinu
Föstudagur 24. mars 2006 kl. 22:51

Meistaraformið fundið í Sláturhúsinu

Keflavík er komið áfram í úrslit Iceland Express deildar kvenna eftir 2-0 sigur á Grindavík í undanúrslitum. Keflavík sigraði síðari viðureign liðanna 97 – 72 og var mun betri aðilinn í leiknum. La Barkus fór á kostum í Keflavíkurliðinu og gerði 35 stig, þá átti Bryndís Guðmundsdóttir einnig frábæran dag í liði Keflavíkur með 18 stig og 16 fráköst.

Jafnt var á með liðunum í upphafi leiks en Tamara Stocks gaf Bryndísi Guðmundsdóttur gott ráðrúm til þess að athafna sig við þriggja stiga línuna og það nýtti Bryndís sér og kveikti í Keflavíkurliðinu með þriggja stiga körfum. Keflavík hafði yfirhöndina að loknum 1. leikhluta 29 – 19 og vörn Grindavíkur lak sem gatasigti.

Þegar flautað var til hálfleiks hafði Keflavík breytt stöðunni í 49 – 33 og Grindavík fjarri sínu besta. Skipti sköpum frábær vörn Keflavíkurliðsins sem pressaði 2 – 2 – 1 á Grindavík og stálu Íslandsmeistararnir hverjum boltanum á fætur öðrum og ef það tókst ekki voru heimamenn að raka mikilvægar sekúndur af skotklukku Grindavíkur. Í hálfleik var La Barkus komin með 17 stig og Bryndís 13. Hildur Sigurðardóttir var komin með 17 stig hjá Grindavík.

Síðari hálfleikurinn einkenndist af sömu baráttu hjá Keflavík og sá fyrri en ljóst var að Grindavík hafði kastað inn hvíta handklæðinu í hálfleik. Lokatölur leiksins voru 97 – 72 eins og áður greinir og ekki bar á öðru en að Íslandsmeistaraformið hefði fundist í Sláturhúsinu eftir mikla leit í vetur.

Tamara Stocks gerði 26 stig hjá Grindavík og Hildur Sigurðardóttir setti niður 24. Saman tóku þær Hildur og Tamara 28 fráköst en þriggja stiga skotnýting Grindavíkurliðsins var í algjöru lágmarki, liðið skaut 23 þriggja stiga skotum en setti aðeins eitt niður á meðan Keflavík gerði 13 þriggja stiga körfur í leiknum.

Tölfræði leiksins

VF – myndir/ JBÓ, [email protected] 

 

 

 

 

 



 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024