Meistaraflokkur Njarðvíkurkvenna hættir keppni
Njarðvík mun ekki tefla fram liði í 1. deild kvenna í körfuknattleik í vetur. Þetta staðfestir stjórn körfuknattleiksdeildarinnar í tilkynningu sem þeir gáfu út í kvöld.
Eftirfarandi er tilkynning stjórnarinnar:
Undanfarnar vikur hefur stjórn deildarinnar ásamt þjálfurum verið að skoða möguleg úrræði er varðar stelpurnar okkar en staðan er því miður þannig að ekki verður haldið úti liði þar sem aðeins 3-5 leikmenn eru að mæta á æfingar.
Þjálfarar liðsins hafa í sumar reynt að laða að nýja leikmenn með fjölda viðtala við stelpur sem eru eða hafa verið á milli liða eða líklegar til að vilja færa sig, því miður bar þessi vinna ekki árangur. Möguleikarnir í stöðunni voru því fáir, við hefðum getað styrkt liðið með útlendingum en þar hefði ekki dugað að fá tvær eins og í fyrra heldur hefði trúlega þurft 3 til 4 til að ná að vera með 10 til 12 manna æfinga og spilahóp, en þá má spyrja sig er þetta það sem við viljum, til hvers erum við að reyna að halda úti liði ef staðan er sú að jafnvel 3 til 4 stelpur í liðinu eru aðkeyptir útlendingar. Stjórn hefur fundað með þeim leikmönnum sem hafa mætt á æfingar og þjálfurum og því miður hefur engin ásættanleg lausn fundist þannig að óhjákvæmilega er ekki annað að gera en draga liðið úr keppni og einbeita sér að því að hlúa að yngri flokka starfinu í kvennaboltanum í von um að það skili liðinu aftur í 1. deildina að nokkrum árum liðnum með sterkan kjarna.