Meistarabragur á Keflvíkingum
-unnu Val örugglega í þriða leiknum
Íslandsmeistarar Keflavíkur voru ekki á því að láta slá sig út úr 4ra liða úrslitum Domino’s deildar kvenna í körfubolta og unnu þriðja leik liðanna í TM-höllinni í Keflavík. Lokatölur 95-76.
Keflavíkurstúlkur leiddu allan leikinn og sýndu baráttu og körfubolta eins og þær gera best. Bestu leikmenn liðsins, þær Brittany Dinkins og Thelma Dís Ágústsdóttir áttu báðar frábæran leik, Brittany skoraði 40 stig og var með 13 stoðsendingar og 8 fráköst og Thelma gerði 29 stig og tók 6 fráköst. Keflavík var með forystu allan tímann, leiddu 25-19 eftir fyrsta leikhluta og í hálfleik var staðan 41-36 fyrir heimastúlkur. Bítlabæjarliðið tók hins vegar öll völd á vellinum í þriðja leikhluta og tryggðu þá gott sem sigurinn með því að ná 16 stiga forskoti fyrir síðasta leikhlutann, 75-56. Það forskot náðu Valskonur að minnka niður í 10 stig en náðu ekki að fylgja því eftir og Keflvíkingar kláruðu dæmið með 95 stigum gegn 76, öruggur sextán stiga sigur.
„Við vorum að spila vel. Það var kraftur í liðinu og ég er mjög ánægður með leik liðsins. Við þurfum að sækja sigur í Valsheimilið næst og klára dæmið svo hér heima. Við viljum ekki hætta núna og ætlum okkur alla leið,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson sem var í viðtali við VF eftir leikinn sem og Erna Hákonardóttir í meðfylgjandi myndskeiði sem sýnir líka síðustu 3 mínúturnar í leiknum.
Keflavík-Valur 95-79 (25-19, 16-17, 31-20, 23-23)
Keflavík: Brittanny Dinkins 40/8 fráköst/13 stoðsendingar/5 stolnir, Thelma Dís Ágústsdóttir 29/6 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 8/7 fráköst/5 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 6, Embla Kristínardóttir 5, Birna Valgerður Benónýsdóttir 4, Irena Sól Jónsdóttir 3/4 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 0, Kamilla Sól Viktorsdóttir 0, Elsa Albertsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Svanhvít Ósk Snorradóttir 0.
Valur: Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 26/12 fráköst, Aalyah Whiteside 21/8 fráköst.