Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Miðvikudagur 30. október 2002 kl. 10:39

Meiðslin hafa sett strik í reikninginn

Hjálmar Jónsson og félagar í sænska liðinu Gautaborg sigruðu Hammerby á útivelli sl. mánudag og komust þar með upp úr fallsæti deildarinnar. Þegar ein umferð er eftir er Gautaborg í 12. sæti með 28 stig, tveimur stigum frá fallsæti. Eins og flestir knattspyrnuáhugamenn vita lék Hjálmar með Keflavíkurliðinu áður en hann fór út. Hann átti frábært tímabil og var m.a. útnefndur íþróttamaður Keflavíkur. Hjálmar hefur unnið sér sæti í landsliði Íslands í sumar þar sem hann hefur verið að spila vel á vinstri kantinum.


Hvernig hefur gengið hjá þér persónulega eftir að þú fórst út?
"Það hefur gengið svona upp og ofan. Ég hef átt í talsverðum erfiðleikum með meiðsli og hefur það sett strik í reikninginn. Þegar ég hef verið heill hef ég verið að spila talsvert og gengið svona sæmilega".

Hvernig er að búa í Svíþjóð?
"Lífið hérna er bara fínt og ég hef náð nokkuð góðum tökum á tungumálinu. Það er þó talsvert öðruvísi að vera ekki að vinna frá 8-18 og fara svo á æfingu. Það er fullt af Íslendingum hérna í námi sem maður hefur ágætt samband við og strákarnir í liðinu eru hressir og skemmtilegir. Þannig að maður hefur það ágætt hérna".

Nú hefur ykkur ekki gengið vel og hafið verið í fallbaráttunni í sumar. Er einhver skýring á því?
"Já, okkur hefur alls ekki gengið nógu vel og það er bara ein einföld skýring á því; við fáum of mörg mörk á okkur og skorum ekki nógu mörg mörk. Nei, svona í alvöru talað eru sjálfsagt margir þættir sem spila inn í. Þjálfarinn hætti, lausir samningar hjá nokkrum mönnum og það má teljaupp margt fleira en við höfum bara ekki verið að spila vel".

Hvernig lýst þér á framhaldið?
"Við eigum einn leik eftir gegn neðsta liði deildarinnar sem er þegar fallið. Hann er á laugardaginn og við verðum að vinna hann til að sleppa við fallið eða lenda í umspili, sigur er því nauðsynlegur til að sleppa við allt saman. Í síðasta leik unnum við Hammarby 0-1 á útivelli og það var það sem við þurftum til að vera áfram í baráttunni.

Verður þú með í þeim leik?
"Ég spilaði síðasta leik á móti Hammarby og ég var deyfður í hnéð fyrir leikinn svo ég gæti spilað. Það er nokkuð um meiðsli í liðinu og einn var í leikbanni þannig að ég var deyður svo ég gæti spilað því ég hef átt við meiðsli að stríða í hnénu sem hafa haldið mér frá. Það verður svo bara að koma í ljós hvort ég get spilað síðasta leikinn".
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024