Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Meiðsli sett til hliðar á morgun“
Föstudagur 5. ágúst 2005 kl. 12:07

„Meiðsli sett til hliðar á morgun“

Íslenska U 16 ára liðið í körfuknattleik beið lægri hlut í gær gegn Slóvenum, 50-68, slæmur kafli í 3. leikhluta gerði út um leikinn.

Jafnt var á með liðunum í hálfleik, 27-27, en í 3. leikhluta gerði íslenska liðið aðeins 3 stig á móti 25 stigum frá Slóvenum og úrslitin því ljós.

Íslenska liðið hafnaði því í 3. sæti milliriðilsins og leikur um 13. – 16. sætið á morgun er þeir spila gegn Belgum. Sá leikur hefst kl. 14 á morgun og sigurvegarinn spilar um 13. – 14. sætið við annað hvort Grikki eða Pólverja. Grikkir verða að teljast mun sigurstranglegri en Pólverjar þar sem íslenska liðið sigraði í sinni viðureign gegn Pólverjum en fékk slæma útreið gegn Grikkjum.

„Leikurinn á morgun skiptir öllu máli, við fengum tvö tækifæri til þess að halda okkur uppi í A-deild og annað tækifærið er liðið. Nú er bara að kýla á þetta og vinna leikinn á morgun,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, í samtali við Víkurfréttir en hann er þjálfari liðsins. „Á morgun ætlum við að spila góðar 40 mínútur og kreista út allt okkar besta í leiknum, lykilmenn liðsins hafa verið undir miklu álagi og eiga sumir við meiðsli að stríða. Við höfum sammælst um það að öll meiðsli verði sett til hliðar í rúma klukkustund á morgun. Belgar eru með hærra lið en við en við munum mæta því með öðrum þáttum í leik okkar,“ sagði Einar að lokum.

VF-mynd/ http://www.blog.central.is/89strakar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024