Meiðsli hrjá Njarðvíkinga
Marcus Van og Friðrik Stefáns tæpir fyrir grannaslaginn
Á morgun fer fram körfuboltaleikur af dýrari gerðinni en þá mætast grannarnir í Reykjanesbæ, Keflavík og Njarðvík í Powerade-bikar karla. Leikurinn fer fram í Keflavík en síðast þegar liðin mættust þar var spennan alveg hreint makalaus. Njarðvíkingar koma særðir til leiks að því er virðist en meiðsli eru að gera vart við sig í þeirra herbúðum.
„Staðan gæti alveg verið betri,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga í samtali við Víkurfréttir en bæði Friðrik Stefánsson og Marcus Van eru að glíma við meiðsli. Hvorugur miðherjanna hefur æft síðan Njarðvíkingar léku gegn Snæfellingum síðastliðinn föstudag. Þannig að stóru strákarnir verða líklega ekki með Njarðvíkingum í leiknum en Einar er engu að síður brattur. „Við erum ekkert að kafna úr sentimetrum en við erum brattir. Keflvíkingar eru kannski ekki stærsta liðið sem við þurfum að kljást við en þeir eiga öflugan mann í teignum í Michael Craion, þeir umkringja hann svo að mikilu leyti með bakvörðum.“ Einar segir að fæstir reikni sjálfsagt með miku frá Njarðvíkingum í leiknum en með góðum stuðningi og baráttu sé allt mögulegt. Einar segir að Njarðvíkingar reikni ekki með Marcus Van í leikinn en líklega kæmi það bara í ljós rétt áður en flautað verður til leiks í Sláturhúsinu á morgun.
Njarðvíkingar unnu síðustu rimmu liðanna eins og áður segir, en sá leikur fór fram í desember á heimavelli Keflvíkinga. Framlengingu þurfti til þess að skera úr um sigurvegara og varð munurinn eitt stig þegar uppi stóð. „Við lékum ekki vel í þeim leik og ættum klárlega að geta leikið betur,“ segir Einar en hann var einnig afar ósáttur við leik sinna manna á föstudag þegar lærisveinar hans töpuðu gegn Snæfellingum á heimavelli sínum, 70-101. Einar segir að þar hafi hans menn alls ekki verið tilbúnir eftir jólafrí og að þetta hafi vafalaust verið slakasti leikur liðsins á tímabilinu til þessa.
Keflvíkingar eru ríkjandi bikarmeistarar og Einar segir það verðugt verkefni að mæta þeim á þeirra heimavelli. Hann viðurkennir að þessir nágrannaslagir séu alltaf sérstakir og oft hafi þeir meiri þýðingu en bara stigin í deildinni. Nú er hins vegar um bikarleik að ræða og þá getur allt gerst að sögn Einars.