Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Með Ólympíuleika í sigtinu
Föstudagur 19. janúar 2007 kl. 13:26

Með Ólympíuleika í sigtinu

Bjarni Sigurðsson var í lok ársins 2006 útnefndur skotmaður Keflavíkur og skömmu síðar skotmaður Reykjanesbæjar. Bjarni stefnir hátt í íþróttinni og dreymir um að komast inn á næstu Ólympíuleika. Yfir vetrartímann er lítið um að vera hjá Bjarna og félögum þar sem aðstaða þeirra er útidyra. Þá segir Bjarni ennfremur að það geti kostað sitt að komast af stað í skotíþróttum.

 

,,Ég byrjaði á því að skjóta leirdúfur árið 2000 og var þá mest að fikta við þetta. Sumarið 2005 dembdi ég mér út í þetta af fullum krafti,” segir Bjarni sem ætlar sér stóra hluti með haglabyssuna að vopni. ,,Það væri gaman að verða Íslandsmeistari í sumar,” sagði Bjarni sem hugsanlega fær sér þjálfara áður en að Íslandsmótinu kemur. Þótt ótrúlegt megi virðast er Bjarni ekki veiðimaður, hann segist lítið gaman af því hafa að skjóta dýr og velur frekar leirdúfurnar.

 

Um 100 félagar eru í Skotdeild Keflavíkur og er aðstaða félagsins skammt utan við Hafnir. ,,Við erum einnig með aðstöðu í Sundmiðstöð Keflavíkur þar sem notast er við loftbyssur. Það er 25 metra braut og þar getum við æft okkur yfir vetrartímann,” sagði Bjarni en í aðstöðunni við Hafnir getur Skotdeildin státað að einni fullkomnustu riffilbraut landsins. ,,Sjálfur er ég meira hrifinn af haglabyssum en rifflum,” sagði Bjarni og finnst honum meiri hasar í haglabyssunum. ,,Ég hef aldrei verið hræddur við skotvopn en þegar maður byrjaði að fara út í Hafnir þá fylgdist maður með sér reyndari mönnum og sá hvernig þeir meðhöndluðu búnaðinn. Vitanlega fór ég að huga meira að örygginu og það kom oft fyrir að hinir ýmsu aðilar fengu ærlegar skammir í hattinn ef þeir báru sig eitthvað rangt að úti í Höfnum,” sagði Bjarni og tónninn í honum gaf það til kynna að hann hefði nú einhvern tíma verið byrjandi í sportinu.

 

Haglabyssan sem Bjarni notast við er af gerðinni Marocci og kostar um 100 þúsund krónur. ,,Góð haglabyssa getur kostað tæpa milljón en mín byssa hefur skilað mér fínum árangri, annars getur vel verið að maður fari að græja sig betur.” Bjarni er verslunarstjóri í Tölvulistanum í Reykjanesbæ og gefur lítið fyrir það að skotleikir séu fullnægjandi æfing yfir veturinn fyrir skotmann sem stefnir hátt. ,,Að vera valinn skotmaður ársins er mikil hvatning og gaman að fá svona viðurkenningu,” sagði Bjarni að lokum. Bjarni og félagar bíða þess nú í ofvæni að vetri sloti svo þeir geti farið út að skeeta eins og þeir kalla það en skeet er greinin sem Bjarni er hvað mest heillaður af. Þar stendur skotmaður á mismunandi pöllum og reynir að hitta eins margar leirdúfur og hann getur.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024