Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Með mar á heila í botnbaráttuslag
Fimmtudagur 8. júlí 2010 kl. 13:44

Með mar á heila í botnbaráttuslag

Orri Freyr Hjaltalín fórnar sér heldur betur fyrir málstaðinn. Hann er fyrirliði Grindavíkur sem er í harðri botnbaráttu í Pepsi-deildinni og spilar nú gegn læknisráði. Orri Freyr fékk mar á heila. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkur og vísað til umfjöllunar á Vísir.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég fékk höfuðhögg í leiknum á móti Haukum,“ segir Orri Freyr í morgun. „Þetta var snemma leiks og ég var ekki að hugsa mikið um þetta. Ég kláraði leikinn en eftir hann fór mér að líða skringilega. Ég fékk jafnvægis- og sjóntruflanir og tveimur dögum eftir leikinn fór ég á spítala,“ segir Orri.

Á spítalanum fór hann í heilaskanna og var á endanum greindur með mar á heila.

„Læknarnir sáu að þetta var komið í tóma vitleysu. Læknarnir sögðu í raun ekki mikið en ég mátti ekki spila á móti KR. Það kom þó ekkert annað til greina,“ sagði Orri.

„Ég lét mig meira að segja vaða í nokkra skallabolta. Þetta er eitthvað sem maður verður að gera og það þýðir lítið að hugsa um þetta. Staðan er bara þannig að við megum ekki við því að missa neina menn út,“ segir Orri.

Hann segist þó vera að koma til og að hann finni ekki mikið til lengur.

„Læknarnir segja bara að ég verði að stýra þessu sjálfur. Mér finnst ég ekki vera að taka neina óþarfa áhættu,“ segir Orri.

Milan Stefán Jankovic, sem stýrir liðinu á meðan Ólafur Örn Bjarnason klárar samning sinn með Brann nú í júlí, hrósar Orra í hástert.

„Hann er ótrúlegur. Hann er frábær fyrirliði og hann hefur staðið sig mjög vel. Það að hann ætli að spila er einkennandi fyrir hann,“ segir Milan.
Grindvíkingar taka á móti Selfyssingum í botnbaráttuslag í kvöld og þann leik mun Orri byrja.