Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Með forystu frá upphafi til enda (Video)
Miðvikudagur 9. nóvember 2005 kl. 00:17

Með forystu frá upphafi til enda (Video)

Íslandsmeistarar Keflavíkur leiddu allan leikinn er þeir sigruðu Grindvíkinga í 8 liða úrslitum Powerade bikarsins. Lokatölur leiksins voru 84-67 Keflvíkingum í vil. A. J. Moye meiddist í öðrum leikhluta og lék ekki með það sem eftir var leiks. Ekki er vitað um alvarleika meiðslanna að svo stöddu en nánari frétta af því er að vænta innan skamms.

Keflavík sýndi vígtennurnar strax í upphafi og voru komnir í 12-6 áður en langt var liðið. Grindvíkingar voru ekki nægilega varkárir í vörninni og gleymdu Magnúsi nokkrum Gunnarssyni í tvígang og refsaði hann þeim með þriggja stiga körfum. Staðan að loknum 1. leikhluta, 26-16 fyrir Keflavík.

Þegar 2 mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta náðu Grindvíkingar að minnka muninn niður í 6 stig, 31-25. Keflvíkingar endurheimtu þó forystuna og bættu einu stigi um betur og gengu með 11 stiga forskot inn í hálfleik. 47-36. Grindvíkingar gerðu aðeins eina þriggja stiga körfu í fyrri hálfleik en Keflvíkingar settu niður sex.

Enn á ný reyndu Grindvíkingar að klóra í bakkann þegar Páll Axel Vilbergsson opnaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu, 47-39. Aðeins fimm stig skildu liðin þegar leikhlutanum lauk eftir ágæta tilburði hjá Grindavík. Staðan að loknum þriðja leikhluta, 57-52.

Í fjórða leikhluta settu Keflvíkingar í lás og hófu síðasta leikhlutann á því að gera 10 stig á móti 2 frá Grindavík. Íslandsmeistararnir létu fjarveru Moye ekki á sig fá og skotrispa Gunnars Stefánsson og Magnúsar Gunnarsson setti Grindvíkinga algerlega út af laginu en þeir Gunnar og Magnús gerðu 9 stig í þremur sóknum og kveiktu gjörsamlega í félögum sínum.

Lokatölur leiksins því 84-67 Keflvíkingum í vil sem eru nú komnir í undanúrslit Powerade bikarsins. Fjölnir og KR mætast í hinum undanúrslitaleiknum en Keflvíkingar mæta erkifjendum sínum frá Njarðvík og fara leikirnir fram þann 18. nóvember í Laugardalshöll.

Magnús Gunnarsson var atkvæðamestur Keflvíkinga með 24 stig en næstur honum var Halldór Halldórson með 11 stig. Í liði Grindvíkinga gerði Páll Axel 20 stig og Jeremiah Johnson 13.

Skoða myndskeið frá leiknum, smellið hér.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/ Jón Björn

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024