Massi stofnar unglingadeild
Verið að að stofna unglingadeild innan Massa, kraftlyftingadeildar UMFN. Að sögn Sturlu Ólafssonar, aðalþjálfara deildarinnar, verða kraftlyftingar framvegis innan ÍSÍ, en liður í því er að sinna unglingastiginu, þ.e. drengjum og stúlkum frá 14 ára aldri.
Farið verður af stað með námskeið tvisvar í viku þar sem kraftlyftingar verða kenndar undir leiðsögn þeirra sem bæði hafa til menntun og reynslu.
Sturla Ólafsson er aðal þjálfari og hefur yfirumsjón með verkefninu en auk hans koma þeir Herbert Eyjólfsson og Sævar Borgarsson að þjálfuninni. Þeir þrír hafa margra ára reynslu í greininni og hafa unnið fjöldan allan af titlum og viðurkenningum.
„Markmið okkar er að undirbúa byrjendur undir keppnisgreinina kraftlyftingar og verður farið yfir alla þá þætti sem að þessari grein snúa s.s tækni, mataræði, hvíld, búnað og síðast en ekki síst íþróttamannslega framkomu. Það er okkar trú að með þessu framtaki séum við að undirbúa framtíðar lyftingafólk frá þeim grunni sem allir ættu að hafa áður en ráðist er í svo erfiða íþrótt sem kraftlyftingar eru,“ segir Sturla.
Kennslan fer fram í þremur litlum hópum þar sem þyngd nemenda ræður hópum en ekki aldur. Kennt verður þriðjudaga og fimmtudaga á milli 14 og 17 og léttasti hópurinn byrjar kl. 14-15 og svo koll af kolli.
Til að skrá sig er best að senda póst á [email protected] og setja inn aldur, þyngd og skóla og kannski einhverjar línur um afhverju viðkomandi vill læra kraftlyftingar.
Þar sem takmarkaður fjöldi kemst inn eru áhugasamir hvattir til að skrá sig strax því æfingar hefjast næsta þriðjudag kl. 14.