Marteinn: Það verður ekkert gefið eftir
Marteinn Guðjónsson var í liði Reynis sumarið 1998 og mátti í tvígang sætta sig við ósigur gegn Víðismönnum í 2. deild. Fyrst 3-1 á Sandgerðisvelli og svo 3-2 á Garðsvelli. Síðustu ár hefur Marteinn verið á mála hjá Njarðvíkingum en er nú kominn heim í Sandgerði og hefur þegar látið til sín taka með Reyni sem vann fyrsta leikinn í deildinni gegn Hamri, 2-3. Marteinn segir sína menn í Reyni klára í slaginn og að skemmtileg stemmning sé farin að myndast í Sandgerði fyrir leiknum. Marteinn verður í baráttunni annað kvöld þegar Reynir tekur á móti Víði á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði kl. 20:00.
,,Það er góð stemmning í liðinu og mér líst bara vel á þetta. Það eru allir að tala um leikinn og Hvíti herinn lætur ekki sitt eftir liggja og verður með einhverjar uppákomur og skemmtilegheit á morgun,” sagði Marteinn í samtali við Víkurfréttir. ,,Nú er allt að smella hjá okkur í liðinu og sigurinn í fyrsta leik var góður, sérstaklega þar sem nýir menn hafa verið að koma í hópinn,” sagði Marteinn sem hefur ekkert séð til Víðismanna og veit lítið við hverju megi búast annað kvöld.
,,Ég held að þeir séu bara nokkuð sterkir. Svona grannaslagir eru skemmtilegustu leikirnir og það er ekkert gefið eftir enda ristir þessi rígur djúpt,” sagði Marteinn en hann býst við að Víðismenn reyni að þefa vel uppi framherjann sinn. ,,Bjössi er hörkufjótur í framlínunni hjá Víði og ég hef trú á því að þeir reyni að spila hann uppi og nota hraðann. Við verðum klárir í varnarlínunni og verðum þéttir fyrir,” sagði Marteinn ákveðinn en hann er örugglega ekki sá eini sem bíður spenntur eftir morgundeginum enda liðin Reynir og Víðir að mætast í fyrsta sinn í áratug á Íslandsmótinu.
Mynd: www.reynir.is – Marteinn í leik með Reyni gegn Hamri á dögunum.