Marteinn fer á fullt hjá Þrótti Vogum
Mikil gróska hefur verið í starfi Þróttar undanfarin ár og vöxtur félagsins hraður að sögn Petru Ruth Rúnarsdóttur formanns Þróttar. Marteinn Ægisson framkvæmdastjóri Þróttar sem var í 60% starfshlutfalli, mun fara í fullt starf í sumar. „Iðkendum og félagsmönnum hefur fjölgað hratt, félagið er með ýmsa starfsemi í gangi og með hærra starfshlutfalli fáum við meiri fagmennsku í starfið og getum haldið betur utan um félagið. Einnig hefur verkefnum fjölgað samhliða íþróttagreinum sem stundaðar eru hjá félaginu,“ segir framkvæmdastjórinn.
Sveitarfélagið hefur reynst félaginu vel í þessum vaxtaverkjum og styður vel við bakið á því. „Hér eru allir að róa í sömu átt. Núna stefnir í fjölgun íbúa og þá reynum við eftir fremsta megni að höfða til barnafjölskyldna sem vilja setjast að í Vogum vegna þess að hér er gott forvarnarstarf unnið og öflugt íþróttafélag. Síðustu árin hafa verið erfið, það hefur reynt mikið á sjálfboðaliða innan félagsins og aðra sem starfa fyrir félagið. Við höfum verið að berjast við mikla vaxtaverki, höfum verið að vinna hörðum höndum að því að láta hlutina ganga upp. Við þessar breytingar getum við vandað betur til verka, verið markvissari í störfum okkar, sinnt félagsmönnum, iðkendum, sjálfboðaliðum og þjálfurum betur í þeirri vegferð sem við erum í.“