Markvörðurinn Sindri yngstur með leikmannasamning við Keflavík
Sindri Kristinn Ólafsson hefur gert leikmannasamning við Keflavík og gildir hann út árið 2016. Sindri er stórefnilegur markvörður sem leikur með 3. flokki en hann er m.a. einn af þremur Keflvíkingum í úrtakshópi U-17 ára landsliðsins.
Sindri Kristinn er fæddur árið 1997 og er því 16 ára en hann er nú yngsti leikmaður sem er með leikmannasamning hjá Keflavík. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sindri verið viðloðandi meistaraflokk í sumar enda hafa markverðir okkar verið óheppnir með meiðsli. Sindri fór t.d. í æfingaferð liðsins á undirbúningstímabilinu og stóð sig vel og ekki er ólíklegt að hann verði í leikmannahópnum í næsta leik Keflavíkur í Pepsi-deildinni.
Keflavík hefur undanfarið lagt áherslu á að gera samninga við unga leikmenn félagsins og bætist Sindri Kristinn þar í stóran hóp. Þess má geta að nú eru 14 leikmenn sem eru 20 ára og yngri með samning við Keflavík. Þar af eru níu leikmenn úr 2. flokki og síðan er Sindri úr 3. flokki.