Markmiðið er að efla knattspyrnuna í Reykjanesbæ
Knattspyrnudeild Njarðvíkur og Knattspyrnufélagið Hafnir vinna saman
Rafn Markús Vilbergsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnudeild Njarðvíkur, og Bergsveinn Andri Halldórsson, formaður Knattspyrnufélagsins Hafna, undirrituðu í gær samstarfssamning þar sem 2. flokkur Njarðvíkur mun meðal annars bera heitið Njarðvík/Hafnir. Markmiðið er að efla knattspyrnuna í Reykjanesbæ, styrkja innviði meistaraflokks Hafna og veita ungum og efnilegum leikmönnum í Njarðvík tækifæri að spila í meistaraflokki í mótum á vegum KSÍ.
„Markmið samningsins fyrir okkur er að þeir strákar sem komast ekki að í meistaraflokki Njarðvíkur fá tækifæri til að spila með meistaraflokki Hafna og á sama tíma er Hafnir búið að byggja upp félag fljótt og vel, mjög skemmtilegt félag, og okkur langar líka að efla það og gera enn sterkara í Reykjanesbæ,“ sagði Rafn.
Knattspyrnufélagið Hafnir er hugsað sem félag fyrir alla unga stráka á Suðurnesjum þar sem leikmenn geta fengið tækifæri á að spila meistaraflokksbolta í stemmningsríku umhverfi og fá á sama tíma tækifæri á að sýna sig á knattspyrnuvellinum. Njarðvík styður mjög vel við stefnu Hafnamanna og vilja hjálpa þeim að þróa starfið betur og sjá til þess að þeir komist áfram á næsta þrep og stækki sem félag. Með því að 2. flokkur muni spila sem Njarðvík/Hafnir munu ungir leikmenn sem hafa farið í gegnum yngri flokka Njarðvíkur eiga möguleika á að fá tækifæri að spila með meistaraflokki Hafna, þróast og þroskast hraðar sem leikmenn og sem eykur möguleikann á að þeir geti fyrr spilað á efri deildum. Einnig mun samstarfið auka líkurnar á að þeir sem eru komnir upp úr 2. flokki Njarðvíkur og eru ekki með spilatíma í meistaraflokki fái tækifæri með Höfnum og haldist þannig í Njarðvíkurumhverfinu og verði áfram virkir í kringum félagið.
Bergsveinn segir að Knattspyrnufélagið Hafnir, sem var endurvakið fyrir tveimur árum, hafi vaxið mjög hratt og með þessum samningi vilja Hafnamenn auka gæði fótboltans og sjá þetta sem tækifæri fyrir unga stráka þar sem þeir koma í skemmtilegt og stemmningsríkt umhverfi. „Sem er líka stresslaust og þeir fá að njóta sín á fótboltavellinum og spila helling.“
Hafnir verða áfram sjálfstætt félag fyrir alla leikmenn á Suðurnesjum þar sem grunngildi og hugmyndir Hafnamanna verða áfram hafðar að leiðarljósi en með samstarfinu munu innviðir félagsins styrkjast á ýmsum sviðum og ungir leikmenn frá Njarðvík munu á sama tíma fá aukinn möguleika á spilatíma með félaginu. Með þessu samstarfi vilja félögin stuðla saman að frekari uppbyggingu knattspyrnu í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum. Knattspyrnudeild Njarðvíkur og væntir mikils af samstarfinu, vonast til að það verði farsælt og öllum til heilla.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, ræddi við Bergsvein og Rafn eftir undirritun samningsins.