Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 19. maí 2003 kl. 22:00

Markaveisla í sigri hjá Keflavík

Það var sannkölluð markaveisla á Keflavíkurvelli þegar heimamenn sigruðu Stjörnuna í 1. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Keflavík vann leikinn 5-3 en staðan í hálfleik var 1-1. Stefán Gíslason skoraði tvö mörk fyrir heimamenn og þeir Magnús Þorsteinsson, Adolf Sveinsson og Hafsteinn Rúnarsson sitt markið hver.

Smellið hér til að sjá myndir úr leiknum!
Keflvíkingar byrjuðu leikinn mjög vel, voru skæðir fram á við og áttu fjöldan allan af færum en Bjarki Guðmundsson markmaður Stjörnunar og fyrrum markmaður Keflavíkur sá við þeim en hann átti góðan leik í markinu. Heimamenn komust yfir um miðjan fyrri hálfleik með marki frá Magnúsi Þorsteinssyni. Keflavík hélt áfram að sækja og átti Hörður Sveinsson nokkur góð færi sem fór forgörðum. Stjarnan jafnaði leikinn rétt fyrir hlé og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Í þeim síðari var meira jafnræði með liðunum en Keflvíkingar réðu þó gangi leiksins. Þeir komust yfir þegar um 20 mínútur voru búnar af seinni hálfleik en það mark skoraði Stefán Gíslason úr vítaspyrnu. Nokkrum mínútum síðar fengu Keflvíkingar aukaspyrnu á hættulegum stað sem Hólmar Rúnarsson framkvæmdi á snyrtilegan hátt beint á kollinn á Adolfi Sveinssyni sem þakkaði pent fyrir sig með marki.
Á þessum tímapunkti leit ekki út fyrir að Stjörnumenn kæmu til baka en á stuttum kafla náðu þeir að jafna metin og stigin í hættu hjá heimamönnum. Eftir þetta sóttu Keflvíkingar meira og ekki tók það langan tíma uns brotið var á Haraldi Guðmundssyni innan vítateigs. Stefán Gíslason framkvæmdi spyrnuna og skoraði annað mark sitt í leiknum. Rétt fyrir leikslok náði svo Hafsteinn Rúnarsson að tryggja heimamönnum sigurinn eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar, sem var nú frekar döpur verður að segjast. Lokatölur 5-3 fyrir Keflavík í hreint mögnuðum knattspyrnuleik.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024