Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Markaveisla í Sandgerði þegar Reynir sigraði Njarðvík
Mánudagur 11. júlí 2011 kl. 10:59

Markaveisla í Sandgerði þegar Reynir sigraði Njarðvík

Sandgerðingar sigruðu grannaslaginn í 2. deildinni í gær þegar Njarðvíkingar kíktu í heimsókn í miklum markaleik. Lokatölur urðu 6-3 fyrir Reynismenn en staðan var 1-1 í hálfleik.

Fyrirfram var búist við mörkum enda hafa bæði þessi lið verið dugleg að koma boltanum í netið í sumar, en það er óhætt að segja að fáir hafi búist við 9 mörkum í blíðunni á N1-vellinum í gærkvöldi.

Viktor Guðnason kom gestunum yfir eftir 27 mínútur en Jóhann Magni Jóhannsson jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar og staðan eins og áður segir 1-1 í hálfleik.



Markahæsti leikmaður deildarinnar, Andri Fannar Freysson kom Njarðvíkingum yfir í fyrstu sókninni í síðari hálfleik og Sandgerðingar virtust slegnir út af laginu. Það tók þá þó ekki nema 5 mínútur að jafna en það gerði Þorsteinn Þorsteinsson með skalla.

Fyrirliði Reynismanna, Aron Örn Reynisson skoraði svo aftur tveimur mínútum síðar og staðan orðin 3-2 fyrir Reynismenn. Njarðvíkingar virtust missa móðinn við þessi mörk og Sandgerðingar létu kné fylgja kviði og skoruðu aftur eftir rúmlega klukkutíma leik, þar var á ferðinni Birgir Ólafsson. Njarðvíkingar minnkuðu muninn skömmu síðar með baráttu marki frá Ísleifi Guðmundssyni en lengra komust Njarðvíkingar ekki.

Á síðustu 10 mínútunum skoruðu þeir Jóhann Magni og Egill Jóhannsson tvö mörk til viðbótar fyrir Reynismenn og 6-3 stórsigur þeirra staðreynd.





VF-Myndir: Eyþór Sæmundsson

Efst má sjá Aron Örn skora fyrir Reyni - Önnur myndin sýnir Andra Fannar sækja að Þorsteini Þorsteinssyni - Birgir Ólafsson Reynismaður vinnur skallann af Magnúsi Þórðarsyni og neðst má sjá þegar Njarðvíkingar sækja hart að Aroni Árnasyni markmanni Reynis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024