Markaregn í Grindavík: Tvö mörk í uppbótartíma
Það var sannkallað markaregn í Grindavík í kvöld þegar Grindvíkingar tóku á móti Valsmönnum í Landsbankadeildinni í knattspyrnu. Valsmenn fóru með sigur af hólmi, 5:3 og þar af voru tvö mörk skoruð í uppbótartíma.
Valsmenn skorðuðu fyrstu tvö mörkin í leiknum með stuttu millibili. Fyrst var það Henrik Eggerts fyrir Val á 21. mínútu og svo Helgi Sigurðsson úr vítaspyrnu tveimur mínútum síðar. Gilles Mbang Ondo minnkaði muninn fyrir Grindavík á 26. mínútu og þá var ljóst að það stefndi í markaleik í Grindavík.
Bjarni Ólafur Eiríksson kom Valsmönnum í 3:1 á 63. mínútu en Tomaz Stolpa minnkaði muninn á 71. mínútu. Tomaz hafði komið inná aðeins fimm mínútum áður. Þarna var staðan orðin 3:2 fyrir Val og allt opið. Valsmenn fengu síðan dæmda vítaspyrnu á 78. mínútu sem Helgi Sigurðsson skorar sitt annað mark úr.
Staðan var 4:2 þegar venjulegur leiktími var liðinn og Grétar Ólafur Hjartarson skorar fyrir Grindavík á 92. mínútu og staðan orðin 4:3 fyrir Val. Valsmenn tóku miðju og Helgi Sigurðsson skorar sitt þriðja mark í leiknum og lokastaðan verður 5:3 í bráðskemmtilegum leik í Grindavík í kvöld.
Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson / Grétar Ólafur Hjartarsson skorar þriðja mark Grindavíkur í uppbótartíma í kvöld.